Í dag var lokið við að setja upp líkan af sólkerfinu við göngustíg sem liggur vestan byggðar á Höfn.  Líkanið er kvarðað niður meira en 2,1 milljarðfalt en er í réttum stærðar- og fjarlægðahlutföllum. Sólin er staðsett á Óslandshæð en reikistjörnurnar dreifast meðfram stígnum allt að golfvellinum við Silfurnes. Reikistjörnurnar eru mótaðar sem kúlur á enda málmstanga og er stærð þeirra á bilinu 1 mm til 6,5 cm. Þær eru festar á gabbrósteina frá Litlahorni, en auk þess eru upplýsingaskilti við þær allar.  Leiðin frá sólinni að Neptúnusi er 2.8 km á lengd og tekur gangan í heild sinni tæpa klukkustund.

Út frá líkani af sólkerfinu gerir fólk sér frekar grein fyrir smæð jarðarinnar, smæð Íslands og okkar sjálfra. Jörðin er eini staðurinn í okkar sólkerfi þar sem líf þrífst svo líkanið minnir á mikilvægi þess að umgangast náttúruna vel, allt umhverfið og jörðina í heild sinni.

Nánar má lesa um verkefnið og fá frekari upplýsingar um sólkerfið hér.

Ætlunin er að gefa fljótlega út bækling um náttúrustíginn og sólkerfið, en nú þegar er hægt að ganga stíginn og fræðast um sólkerfið auk þess að njóta útiverunnar, fjörunnar og fuglalífsins.  Er von starfsmanna á Náttúrustofu Suðausturlands að sem flestir hafi gagn og gaman af líkaninu.

Birt:
24. júlí 2014
Tilvitnun:
Náttúrustofa Suðausturlands „Líkan af sólkerfinu sett upp við göngustíg á Höfn í Hornafirði“, Náttúran.is: 24. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/24/likan-af-solkerfinu-sett-upp-vid-gongustig-hofn-i-/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: