Plast í heimshöfunum, Atlantshaf fyrir miðjuÍ grein á National Geographic segir frá því að sjávarlíffræðingurinn Andres Cozar Cabañas og rannsóknarteymi hans hafi lokið við fyrstu kortlagningu plastúrgangs sem flýtur um á heimshöfunum í milljónavís, í fimm stórum hringiðum. Afrakstur vinnu þeirra var birtur nú í júlímánuði í Proceedings of the National Academy of Sciences

En það var eitthvað við niðurstöðuna sem passaði ekki. Magnið var minna en búist var við, sé miðað við gríðarlega aukningu á framleiðslu plasts í heiminum. Ástæðuna er þó ekki að rekja til þess að plastið hafi hreinlega gufað upp heldur er reiknað með að það sem ekki hefur brotnað niður í örsmáar einingar, svokölluð hafmeyjartár og haft þannig geigvænleg áhrif á lífríki sjávar, bæði vegna efnisumfangs plastsins og eitrunar út frá því, hafi sokkið niður í djúp hafsins og sé því ekki lengur sýnilegt á yfirborði sjávar. 

Það er þó ekki þar með sagt að það sem flýtur um á heimshöfunum sé í litlu magni, síður en svo. Kortlagningin leiðir einungis í ljós, eins og svo margar rannsóknir, að við vitum svo lítið, getum mælt svo lítið, sérstaklega þegar að það er horfið sjónum okkar í orðsins tvöföldu merkingu. 

Höfum þetta í huga næst þegar við ákveðum hvort við þurfum plast eða ekki.

Birt:
July 24, 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Plast fljótandi á heimshöfunum kortlagt“, Náttúran.is: July 24, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/24/plast-fljotandi-heimshofunum-kortlagt/ [Skoðað:June 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: