Vítamín Náttúra
Nýlega sýndi Anna Birna Björnsdóttir lokaverkefni sitt á áhrifamikilli sýningu í Listasafni Árnesinga. Sýningin hét „Vítamín Náttúra“ eins og lokaverkefnið en það er afrakstur tveggja ára mastersnáms Önnu Birnu í innanhússarkítektúr við Kunst- og designhøgskolen i Bergen, Noregi.
Verkefnið fjallar um áhrif umhverfis á heilsu og samskipti. Það hefur verið sýnt fram á að náttúran hefur sérstaklega jákvæð áhrif á samskipti, sambönd og heilsu í alla staði svo hví ekki að nýta hana sem úrræði í byggðu umhverfi?
Niðurstaðan að verkefninu varð endurhæfingarstöð fyrir fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda varðandi tengingu og samskipti sín á milli. Upplifunin er nokkurs konar blanda af fjölskyldu fríi, meðferðarheimili og sumarbúðum. Þar er náttúran notuð sem hluti af arkítektúrnum og hönnuninni í þeim tilgangi að bæta sambönd og heilsu fólks. Fjölskyldurnar hitta þar aðrar fjölskyldur í svipuðum aðstæðum, leysa verkefni saman og fylgja dagskrá sérútbúna fyrir fjölskylduna með einstaklings-, hópmeðferðum og annarri starfsemi.
Stöðin er staðsett við lítinn foss sem heitir Baula, sem er rétt fyrir ofan Hveragerði. Þar er hægt að baða sig í ánni og við lítinn hver sem hitar upp vatnið á einum stað. Náttúran á svæðinu hefur orðið að hluta af hönnuninni og er notuð sem meðferðarúrræði. Innblásturinn að byggingunum kemur frá Íslensku fjöllunum og burstabæjunum. Þær eru staðsettar og hannaðar til að fylgja landslaginu.
Endurhæfingarstöðinni er skipti niður í aðalbyggingu og sjö kofa þar sem fjölskyldurnar dvelja. Í aðalbyggingunni er gengið inn á torg sem er nokkurskonar gróðurhús. Þakið sem er innblásið af tré sameinar byggingarnar og það skýlir garðinn fyrir óútreiknanlegu veðrinu.
Aðalbyggingunni er skipt niður í meðferðarherbergi, matsal, allrahanda sal og móttöku. Þar er líka útisvæði með útsýni yfir ánna þar sem hægt er að hafa samkomur með varðeld. Gangstígar tengja svo allar byggingarnar og náttúruna saman sem gera öllum kleift að komast ferða sinna um svæðið.
Við getum öll haft gott af smá Vítamín Náttúru í líf okkar.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Anna Birna Björnsdóttir „Vítamín Náttúra“, Náttúran.is: 19. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/19/vitamin-nattura/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.