Lifandi markaður gjaldþrotaÍ Viðskiptablaðinu í dag er svohljóðandi frétt um gjaldþrot Lifandi markaðar:

Eigendur Lifandi markaðar ákváðu að óska eftir gjaldþroti fyrirtækisins. Nýrra eigenda leitað.

Veitingastaðurinn og verslunin Lifandi markaður hefur verið úrskurðaður gjaldþrota. Fyrirtækið var í eigu Auðar I, sjóðs í rekstri Auðar Capital sem sameinaðist Virðingu í byrjun árs. Það voru eigendur fyrirtækisins sem óskuðu eftir því að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að fyrirtækið hafi verið úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júlí síðastliðinn. Þrotabúið er komið í hendur skiptastjóra sem hefur auglýst eftir kröfum í þrotabúið.

Verslun og veitingastaðir Lifandi markaðar eru opin þrátt fyrir að fyrirtækið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Jóhann H. Hafstein, skiptastjóri Lifandi markaðar, segir ekki útilokað að nýir eigendur komi að rekstrinum bráðlega.

Lifandi markaður rekur þrjár verslanir og veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Lifandi markaðar sem liggur fyrir, þ.e. fyrir árið 2012, nam tap félagsins tæpum 44,5 milljónum króna. Það bættist við 47,3 milljóna tap árið 2011. Rekstrartap fyrir afskriftir nam tæpum 37 milljónum króna árið 2012 borið saman við 44 milljónir árið 2011. Eignir námu rúmum 229 milljónum króna en skuldir 199,4 milljónum króna. Eigið fé félagsins var jákvætt um tæpar 30 milljónir.

Birt:
14. júlí 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lifandi Markaður gjaldþrota“, Náttúran.is: 14. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/14/lifandi-markadur-gjaldthrota/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: