Í HvalfirðiOpið bréf til Norðuráls á Grundartanga:

Undanfarnar vikur hefur í fréttablöðum gefið að líta heilsíðuauglýsingu með fyrirsögninni „Álver á heimsmælikvarða.“ Í auglýsingunni vekur Norðurál á Grundartanga athygli á góðum tökum sínum á útsleppi mengandi efna, einkum flúors. Norðurál telur að áhrif fyrirtækisins á lífríki Hvalfjarðar séu óveruleg, bendir á niðurstöður umhverfisvöktunar fyrir árið 2013 því til sönnunar og telur gæði rekstrarins á heimsmælikvarða. Af þessu tilefni óskar Umhverfisvaktin við Hvalfjörð eftir því að forsvarsmenn Norðuráls svari eftirfarandi spurningum hið fyrsta og eigi síðar en 1. ágúst n.k.

  1. Er frammistaða Norðuráls á heimsmælikvarða ef iðjuverið þarf heimild til að losa ríflega 40% meira af flúor á hvert tonn áls heldur en Alcoa Fjarðaál?
  2. Finnst Norðuráli rétt að miða „árangur“ sinn við s.l. ár þar sem veðurskilyrði voru allt önnur en árin á undan og flúor rigndi jafnt og þétt af gróðri?
  3. Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það óveruleg umhverfisáhrif að á meirihluta vöktunarbæja skuli ár eftir ár mælast svo hátt flúor í kjálkum sauðfjár að hætta sé á tannskemmdum og að tannskemmdir hafi orðið í sauðfé nú þegar?
  4. Í ljósi þess að austlægar vindáttir ríkja á svæðinu: Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það óveruleg umhverfisáhrif að afföll sauðfjár vestan við iðjuverið skuli vera marktækt meiri og frjósemi minni heldur en í öðru sauðfé?
  5. Finnst Norðuráli það æskileg staða, að áhrif langtíma flúorálags á kindur og hross skuli ekki þekkt, en leyfilegt útsleppi flúors byggt á áætluðu þoli dýranna?
  6. Skýrslur sýna að heysýni voru ekki flúormæld fyrr en sex árum eftir mengunarslysið í álveri Norðuráls 2006. Hverju sætir það?
  7. Norðurál hefur á hendi umsýslan vöktunar vegna eigin mengunar. Telur Norðurál, í ljósi beinna fjárhagslegra og viðskiptalegra tengsla fyrirtækisins við rannsakendur, Umhverfisstofnun og höfunda vöktunarskýrslna, trúverðugleika mengunarmælinga nægilegan?
  8. Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það til fyrirmyndar að erfitt sé að lesa skýrslur um umhverfisvöktun sér til gagns?
  9. Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það til fyrirmyndar að ekki sé til viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa í iðjuverinu?
  10. Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það til fyrirmyndar að auka álframleiðsluna og þar með losun flúors þó iðjuverið starfi í blómlegu landbúnaðarhéraði?

Svörin sendist Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð: umhverfisvaktin@umhverfisvaktin.is eða formanni Umhverfisvaktarinnar, Þórarni Jónssyni, Hálsi, 276 Kjós.

Hvalfirði, 7. júlí 2014, Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

Birt:
8. júlí 2014
Tilvitnun:
Ragnheiður Þorgrímsdóttir „Álver á heimsmælikvarða?“, Náttúran.is: 8. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/08/lver-heimsmaelikvarda/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: