Álver á heimsmælikvarða?
Opið bréf til Norðuráls á Grundartanga:
Undanfarnar vikur hefur í fréttablöðum gefið að líta heilsíðuauglýsingu með fyrirsögninni „Álver á heimsmælikvarða.“ Í auglýsingunni vekur Norðurál á Grundartanga athygli á góðum tökum sínum á útsleppi mengandi efna, einkum flúors. Norðurál telur að áhrif fyrirtækisins á lífríki Hvalfjarðar séu óveruleg, bendir á niðurstöður umhverfisvöktunar fyrir árið 2013 því til sönnunar og telur gæði rekstrarins á heimsmælikvarða. Af þessu tilefni óskar Umhverfisvaktin við Hvalfjörð eftir því að forsvarsmenn Norðuráls svari eftirfarandi spurningum hið fyrsta og eigi síðar en 1. ágúst n.k.
- Er frammistaða Norðuráls á heimsmælikvarða ef iðjuverið þarf heimild til að losa ríflega 40% meira af flúor á hvert tonn áls heldur en Alcoa Fjarðaál?
- Finnst Norðuráli rétt að miða „árangur“ sinn við s.l. ár þar sem veðurskilyrði voru allt önnur en árin á undan og flúor rigndi jafnt og þétt af gróðri?
- Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það óveruleg umhverfisáhrif að á meirihluta vöktunarbæja skuli ár eftir ár mælast svo hátt flúor í kjálkum sauðfjár að hætta sé á tannskemmdum og að tannskemmdir hafi orðið í sauðfé nú þegar?
- Í ljósi þess að austlægar vindáttir ríkja á svæðinu: Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það óveruleg umhverfisáhrif að afföll sauðfjár vestan við iðjuverið skuli vera marktækt meiri og frjósemi minni heldur en í öðru sauðfé?
- Finnst Norðuráli það æskileg staða, að áhrif langtíma flúorálags á kindur og hross skuli ekki þekkt, en leyfilegt útsleppi flúors byggt á áætluðu þoli dýranna?
- Skýrslur sýna að heysýni voru ekki flúormæld fyrr en sex árum eftir mengunarslysið í álveri Norðuráls 2006. Hverju sætir það?
- Norðurál hefur á hendi umsýslan vöktunar vegna eigin mengunar. Telur Norðurál, í ljósi beinna fjárhagslegra og viðskiptalegra tengsla fyrirtækisins við rannsakendur, Umhverfisstofnun og höfunda vöktunarskýrslna, trúverðugleika mengunarmælinga nægilegan?
- Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það til fyrirmyndar að erfitt sé að lesa skýrslur um umhverfisvöktun sér til gagns?
- Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það til fyrirmyndar að ekki sé til viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa í iðjuverinu?
- Finnst forsvarsmönnum Norðuráls það til fyrirmyndar að auka álframleiðsluna og þar með losun flúors þó iðjuverið starfi í blómlegu landbúnaðarhéraði?
Svörin sendist Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð: umhverfisvaktin@umhverfisvaktin.is eða formanni Umhverfisvaktarinnar, Þórarni Jónssyni, Hálsi, 276 Kjós.
Hvalfirði, 7. júlí 2014, Umhverfisvaktin við Hvalfjörð
Birt:
Tilvitnun:
Ragnheiður Þorgrímsdóttir „Álver á heimsmælikvarða?“, Náttúran.is: 8. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/08/lver-heimsmaelikvarda/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.