Verndum fagfólk, viðskiptavini og náttúru
Síðastliðin 15 ár hefur orðið bylting á Norðurlöndunum hvað varðar vitneskju um innihaldsefni snyrtivara og forvarnir um hollustuhætti í hársnyrtifaginu. Danir fara þar fremstir í flokki með virtar rannsóknir, vottaðar Grænar stofur og fræðslu innan fagsins.
Á Gentofte sjúkrahúsinu í Danmörku er staðsett þekkingasetur fyrir hársnyrta og snyrtifræðinga.
Þar eru gerðar rannsóknir sem varða húðvandamál og öndunarfærakvilla hjá hársnyrtum og snyrtifræðingum ásamt því að barist er fyrir bættum vinnuaðstæðum.
Í þessari grein verður stiklað á stóru um það hvernig við, hársnyrtar, getum farið betur með okkur sjálf, viðskiptavini okkar og umhverfið í leiðinni.
Húðsjúkdómar
Samkvæmt rannsóknum innan Evrópusambandsins eru hársnyrtar í mestri hættu gagnvart atvinnutengdum húðsjúkdómum. Allt að 70% hársnyrta finna á einhverjum tímapunkti fyrir húðvandamálum sem tengjast vinnunni. Tæplega helmingur hársnyrta glíma við húðvandamál tengd vinnunni í lengri tíma, þar er áunnið ofnæmistengt exem algengast. Þetta vandamál á án efa sinn þátt í stuttum starfsaldri hársnyrta. Mörgum þessara tilfella mætti komast hjá með einföldum hætti.
Hársnyrtar eru með blautar hendur stóran hluta vinnudags sem gerir það að verkum að þeir eru mun viðkvæmari en ella fyrir öllu áreiti og ofnæmisvöldum. Því er mikilvægt að nota ávallt hanska við hárþvott, þegar litur er blandaður og borinn í, strípur og permanent sett í hár og áhöld þrifin. Allra bestu hanskar sem völ er á eru púðurlausir Nitril hanskar. Mikilvægt er að fara eftir því að einnota hanskar eru einnota. Það að nota slíka hanska oftar en einu sinni og snúa þeim jafnvel við skapar snertingu við efnin úr hárlitnum. Jafnvel þó svo að búið sé að þvo hanskana vel þá sitja efni eftir sem óæskilegt er að vera í mikilli snertingu við. Um leið er vert að hafa í huga að nota hanska eins lengi og nauðsynlegt er, en eins stutt og hægt er.
Það kemur mörgum á óvart að mesta snerting hársnyrta við háralit er þegar hár er klippt og mótað. Því er afar mikilvægt, vilji maður verjast ofnæmi og exemi, að klippa hár áður en litað er. Í Danmörku hafa allir hársnyrtiskólar tekið þessa reglu upp og þetta er einnig reglan á öllum Grænum stofum. Frönsk rannsókn sem gerð var á 18 hársnyrtum sem þvoðu, lituðu, klipptu, greiddu og þurrkuðu hár á dúkkuhausum 6 sinnum hver, sýndi fram á að mest magn af PPD litarefninu var á höndum hársnyrtanna á þeim tíma sem klippt var og hárið mótað. PPD greindist einnig í þvagi þáttakenda 48 klukkustundum eftir meðferðina. Þess var vandlega gætt að hársnyrtarnir höfðu ekki verið í snertingu við háraliti í langan tíma fyrir tilraunina, svo þeir voru hreinir af PPD þegar tilraunin fór fram.
Það eru fleiri hlutir sem skipta máli við forvarnir gegn húðvandamálum. Eftirfarandi listi telur upp efni sem best er að varast að komast í snertingu við:
- Lýsingarefni, Amonium Persulfate
- Litarefni, PPD og toluene-2,5-dianine(eru í flest öllum hárlitum)
- Permanent, Glycerol monothyoglucolate
- Ilmefnin (það eru 26 ilmefni sem eru ofnæmisvaldandi)
- Rotvarnarefni
- Vatn(sjá umfjöllun um hanska)
- Hreinsiefni, Sodium laureth sulphate (finnst í mörgum sjampóum og sápum)
- Nikkel(finnst í hinum ýmsu áhöldum á hársnyrtistofum s.s. Skærum, spennum og fleiru)
- Púðraðir latex hanskar
- Ákjósanlegast væri að forðast notkun þessara efna alfarið þó er erfitt að sleppa vatninu alfarið en þar skiptir rétt hanska notkun höfuð máli.
Efnin og afleiðingarnar
Hvort sem valið er að vinna eftir kerfi Grænu stofanna eða ekki er nauðsynlegt að allir hársnyrtar þekki efnin sem eru notuð. Norðmenn hafa til dæmis ströngustu reglugerðir sem þekkjast hvað varðar loftræstingu á vinnustöðum og í Danmörku er mælst til þess að ekki sé litað hár á ungmennum yngri en 16 ára. Á öðrum Norðurlöndunum hefur verið umræða um að setja aldurstakmark hvað hárlitanir varðar í lög. Að auki er stranglega mælt gegn því að hár barnshafandi kvenna sé litað sem og hár kvenna með barn á brjósti. Umræðan er það mikil að í Danmörku tíðkast ekki að þessir hópar liti hár sitt og Danska Umhverfisstofnunin hefur gefið út bækling þess efnis. Á Íslandi virðist umræða um þessa hluti ekki hafa náð í gegn.
Grænar hársnyrtistofur hafa bannlista sem inniheldur 10 skaðvænlegustu efnin sem eru algeng í hársnyrtivörum. Væntanlega munu fleiri efni bætast á listann með tímanum og fleiri rannsóknum af því mun fleiri efni eru í hársnyrtivörum sem eru skaðleg bæði okkur og náttúrunni.
Efni með aminophenol í nafninu, mjög ofnæmisvaldandi
- 1-naphthol, mjög ofnæmisvaldandi
- Formaldehyde og formaldehyd(formalín)leysandi efni, krabbameinsvaldandi, eitrað, mjög ofnæmisvaldandi
- Thioglycolic acid og thioglycolate, ertandi og ofnæmisvaldandi
- 4-amino-2-hydroxytoluene, mjög ofnæmisvaldandi
- 4-amino-3-nitrophenol, mjög ofnæmisvaldandi
- Methylisothiazolinone og methylchloroisothiazolinone, ofnæmisvaldandi og getur valdið skemmdum á taugakerfinu.
- Efni með paraben í nafninu , valda hormónatruflunum, ofnæmisvaldandi, sum brotna hægt niður í lífríki sjávar.
- Efni með p-phenylenediamine (PPD) í nafninu , verulega ofnæmisvaldandi, eitruð, veldur staðbundinni ertingu, hefur áhrif á ofnæmiskerfið þegar það blandast oxandi efni(festi).
- Efni með resorcinol í nafninu, ofnæmisvaldandi, veldur hormónatruflunum, slæmt fyrir lífríkið.
- Efni með toluene-2,5-diamine í nafninu, verulega ofnæmisvaldandi, hugsanlega skaðlegt erfðaefni mannsins, eitrað, heilsuspillandi.
- Þá eru lýsingarefni einungis leyfð ef þau eru sett inn í pappír og gæta verður þess að þau snerti ekki hársvörðinn. Lýsingarefnin eru einu litir sem innihalda venjulegan festi og eru leyfð á Grænum hársnyrtistofum.
Þess ber að geta, eins undarlegt og það er, að öll þessi efni eru leyfileg í snyrtivörum. Það reynist hins vegar mjög erfitt að breyta Evrópureglugerðum um snyrtivörur. Til dæmis leyfir Evrópska snyrtivörulöggjöfin PPD sem hámark 4% af innihaldi vöru. Ljósir háralitir innihalda að jafnaði 0,02%-0,39% af PPD, miðlungs tónar 0,14%-0,39% og dökkir tónar 0,74%-2,00%. Það þarf hins vegar ekki nema 0,005% af efninu að vera PPD til að framkalla ofnæmi. Þá tekur reglugerðin einnig mið af viðskiptavinunum sem fá lit á nokkurra vikna fresti en ekki fagmanninum sem starfar við litanir á hverjum degi.
Það eru fleiri sjúkdómar og erfiðleikar en ofnæmi og exem efnanotkunin getur valdið. Sem dæmi má nefna:
- Bráðaofnæmi, öndunarerfiðleikar
- Hárlos
- brjóstakrabbamein, eftir því sem hársnyrtir starfar lengur í greininni aukast líkurnar mikið á að fá brjóstakrabbamein
- Þvagblöðrukrabbamein, tengt efnum í permanenti
- Hvítblæði, tengt háralitum
- Dönsk-spænsk rannsókn sem náði yfir 12 ára tímabil og 45.341 fæðingar drengja sýndi að konur sem starfa sem hársnyrtar, ræstitæknar, í landbúnaði eða á rannsóknarstofum(vinna allar með hormónabreytandi efni) séu tvöfallt líklegri til að eignast sveinbörn með fósturskaða á kynfærum en aðrar konur.
Grænþvottur
Nú þegar umræða um heilsusamlegri og umhverfisvænni vörur er orðin fyrirferðameiri bjóðast sífellt fleiri vörur sem eru markaðssettar sem grænar, umhverfisvænar, lífrænar og þar fram eftir götunum. Hugtakið grænþvottur er skilgreint sem svo að vara, þjónusta eða fyrirtæki er markaðssett grænni, það er að segja umhverfisvænni, en það er í raun og veru.
Sé það vilji fólks að velja heilsusamlegri og umhverfisvænni vörur þarf það að vera á tánum. Eina reglan sem ætti að viðhafa er að treysta engum nema sjálfum sér. Það er sífellt verið að reyna að plata okkur því snyrtivörubransinn snýst jú um peninga. Ætla má að í fæstum tilfellum séu sölumenn vísvitandi að fara með rangt mál enda koma upplýsingar um vörunar beint frá framleiðendum þeirra.
Flest allar vörur sem eru á markaðinum og eru markaðsettar sem grænar reynast innihalda einhver efnanna á bannlista Grænu stofanna. Því er gott að viðhafa þann sið að kynna sér innihaldslýsingar á öllum vörum sem við hyggjumst kaupa. Best er að byrja neðst á innihaldslýsingunni, því það þarf ekki mikið af efninu til að það reynist skaðvænlegt. Að auki er nóg að varan innihaldi aðeins eitt efni af bannlistanum til að hún sé útilokuð af Grænum stofum. Athugið að stundum þarf að leita vel því orðin á bannlistanum geta einnig verið inni í lengra orði.
Sem dæmi um grænþvott á nefna að nánast allir litir sem seldir eru í heilsubúðum á Íslandi innihalda efni á bannlistanum. Oft er búið að bæta orðum eins og Natur, Organic eða Henna við heiti vörunnar eða smella á þær límmiða með laufblaði. Góð leið til að komast hjá þessu er að kaupa vörur sem eru vottaðar af þriðja aðila. Sem dæmi um slíkar merkingar má nefna Svansmerkið, lífræna Demeter vottun, merki Evrópusambandssins fyrir lífræna ræktun og Evrópublómið. Í dag er enn ekki hægt að fá háraliti með umhverfismerkingum og líklega langt í að það gerist. Hreinustu háralitir sem hægt er að nota eru hreinir Henna litir, þá verður að passa að ekki sé búið að blanda litinn með efnum á borð við PPD. Hægt er að fá Svansvottaðar hársnyrtivörur svo sem sjampó, hárnæringar og mótunarefni. Hins vegar er ágætt að nota lista Grænu stofanna til hliðsjónar við val á litum og öðrum hársnyrtivörum, sé vilji til þess að velja vörur sem eru eins mann- og umhverfisvænni og völ er á.
Eins og sjá má er margt að varast þegar kemur að efnanotkunn á hársnyrtistofum. Það er þó ljóst að með því að nota hanska á réttan máta geta einhverjir komist hjá áunnu ofnæmi og exemi. Með aukinni umræðu og fræðslu um þessi efni verður vonandi hægt að auðvelda starf margra hársnyrta og lengja um leið starfsaldur fólks sem annars þyrfti jafnvel að hrökklast úr starfi sökum atvinnusjúkdóma.
Höfundur greinarinnar er Rán Reynisdóttir og hún er hársnyrtir og í stjórn Félags hársnyrtisveina. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Klipp Fréttabréfi Félags Hársnyrtisveina.
Ljósmynd: Rán Reynisdóttir mundar skærin.
Birt:
Tilvitnun:
Rán Reynisdóttir „Verndum fagfólk, viðskiptavini og náttúru“, Náttúran.is: 2. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/02/verndum-fagfolk-vidskiptavini-og-natturu/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. júlí 2014