Umhverfisstofnun stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plast í hafi í Hörpu þann 24. september 2014. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að leggja til aðgerðir til að draga úr plastúrgangi í hafinu. Plast leikur stórt hlutverk í daglegu lífi okkar og mun gera það um fyrirsjáanlega framtíð. Vitað er að plastúrgangur í hafinu hefur neikvæð áhrif á auðlindir hafsins og á sjávarútveg, svo og á nýtingu strandsvæða fyrir almenning og ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að draga úr þessum áhrifum.

Plastúrgangurinn í hafinu er af ýmsum toga, allt frá míkróplasti sem hefur m.a. verið notað í auknum mæli í snyrtivörur á allra síðustu árum, upp í stóra plasthluti og drauganet. Plast sem velkist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Eiturefni sem fyrirfinnast í plastinu eða sitja utan á því eiga greiða leið inn í vistkerfið og þar með í fæðukeðjuna. Sjá myndband.

Útgerðir verða fyrir miklu tjóni vegna plasts sem flækist í veiðarfæri, skrúfur, vatnsinntök o.fl. Því er mikilvægt að auka meðvitund fólks um málefnið og grípa til markvissra aðgerða til að draga úr plastúrgangi og áhrifum hans í sjónum.

Á ráðstefnunni sem verður í Silfurbergi í Hörpu er ætlunin að fara yfir stöðu mála og benda á færar leiðir til að koma í veg fyrir að plastúrgangur lendi í sjónum. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Ráðstefnan er hluti af formennskuáætlun Íslands og er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Til þess að fá fram fjölbreyttar, markvissar og raunhæfar lausnir er nauðsynlegt að ná saman breiðum hópi þátttakenda, bæði frá opinberum aðilum og úr einkageiranum. Þess vegna er ráðstefnan haldin daginn fyrir Íslensku sjávarútvegssýninguna, sem fram fer í Kópavogi dagana 25.- 27. september.

Skráning á ráðstefnuna.

Mynd: Úr kynningarefni um ráðstefnuna.

Efni af ráðstefnunni, upptökur og skyggnur


Birt:
15. september 2014
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Vertu með í að hreinsa plastið úr heimshöfunum“, Náttúran.is: 15. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/06/30/vertu-med-i-ad-hreinsa-plastid-ur-heimshofunum/ [Skoðað:7. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. júní 2014
breytt: 12. nóvember 2014

Skilaboð: