Í dag verður formlega hleypt af stokkunum verkefninu ,,Aldingarður æskunnar” í Steinahlíð við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Þessi fyrsti Aldingarður æskunnar er samstarfsverkefni Barnavinafélagsins Sumargjafar og Garðyrkjufélags Íslands.

Um Aldingarða æskunnar:

Íslendingar hafa lengi verið að prófa sig áfram með ræktun plantna til nytja og skrauts. Áhugi fyrir ræktun ávaxtatrjáa hefur vaxið mikið á undanförnum árum og hefur þekking og aukinn árangur ýtt þar undir.

Garðyrkjufélag Íslands (G.Í.) hefur verið í fremstu röð að afla og miðla þekkingu um ræktun ávaxtatrjáa hér á landi, m.a. með skráningu og utanumhaldi upplýsinga, námskeiðahaldi, þátttöku í tilraunaverkefnum með Landbúnaðarháskóla Íslands og gerð aldingarðs í samvinnu við Kópavogsbæ í Meltungu í Kópavogi.

Árið 2011 var stofnaður Ávaxtaklúbbur innan Garðyrkjufélagsins með það að markmiði að efla ræktun ávaxta- og berjaplantna á Íslandi og auka þekkingu fólks á þeim en Ávaxtaklúbburinn hefur haft veg og vanda af þeirri vinnu undanfarin ár.

Ræktun ávaxtatrjáa markar nýjan kafla í ræktunarsögu landsins og starfi félagsins. Félagið hefur hug á að festa ræktun ávaxtatrjáa enn frekar í sessi með því að nýta þá dýrmætu þekkingu og reynslu sem er til staðar til að efla og þróa nýja hugsun í þessari ræktun.

Það er mikill áhugi hjá Garðyrkjufélaginu á því að til verði sérstakir trjáreitir með ávaxtatrjám og berjarunnum í náinni samvinnu við leikskóla, foreldra barna, sveitafélög og aðra velunnara í sem flestum sveitafélögum landsins.

Garðyrkjufélag Íslands leitaði til Barnavinafélagsins Sumargjafar um samstarf við að hrinda af stað verkefninu ,,Aldingarður æskunnar” en það heiti yrði notað um slíka garða um land allt.

Í Aldingörðum æskunnar yrðu ræktuð aldintré, eins og t.d. eplatré og kirsi, en jafnframt yrði lögð áhersla á nýjar og gamlar tegundir berjarunna. Tilgangur verkefnisins væri að efla vitund og virðingu ungra barna á ræktun ávaxtatrjáa og berjarunna með því skapa fallegan trjáreit með algjöra sérstöðu. Verkefni þessu verður fylgt eftir með fræðslu til barna, foreldra og annarra sem láta sig þessi mál varða. Öll fræðsla og utanumhald verður á vegum Ávaxtaklúbbs Garðyrkjufélagsins.

Birt:
June 25, 2014
Tilvitnun:
Garðyrkjufélag Íslands „Aldingarður æskunnar“, Náttúran.is: June 25, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/06/25/aldingardur-aeskunnar/ [Skoðað:June 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: