Frá undirritun samkomulagsins í dag. Kristján Andri Stefánsson undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd og Artur Runge-Metzger fyrir hönd ESB.Samningamenn Íslands og Evrópusambandsins hafa í dag áritað samning um fyrirkomulag á sameiginlegu markmiði 29 ríkja innan Kýótó-bókunarinnar á tímabilinu 2013-2020, varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Gert var ráð fyrir þessu fyrirkomulagi við breytingar á Kýótó-bókuninni árið 2012, en með samningnum nú er kveðið á um skuldbindingar Íslands innan hins sameiginlega markmiðs, en þær verða sambærilegar og gerist hjá ríkjum ESB. Stefnt er að því að undirrita samninginn í júlí.

Ríkjum er heimilt í Kýótó-bókuninni að taka á sig sjálfstæðar skuldbindingar eða að sameinast um tölulegt markmið fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Samninganefnd Íslands mat það á sínum tíma að það væri skynsamlegt að skoða möguleika á sameiginlegu markmiði með ríkjum í ESB eftir 2012, þar sem um 40% af losun Íslands myndi þá falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, skv. ákvæðum EES-samningsins. Gengið var frá pólitísku samkomulagi þessa efnis árið 2009. Þegar annað skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar (frá 2013 til 2020) var samþykkt árið 2012, var formlega gengið frá því að 29 ríki tækju á sig sameiginlega skuldbindingu um 20% minnkun losunar á tímabilinu miðað við 1990; þ.e. 27 ríki ESB, Króatía og Ísland. Króatía gekk síðan í ESB og ríki ESB gengu frá innri skiptingu skuldbindinga innan hins sameiginlega markmiðs. Síðar voru hafnar samningaviðræður milli framkvæmdastjórnarinnar og Íslands um hlut Íslands og gengið út frá því að sambærileg viðmið væru notuð og innan ESB þótt lagaleg umgjörð sé önnur.

Tvískiptar skuldbindingar

Samkvæmt samningnum verða skuldbindingar Íslands tvískiptar á 2. skuldbindingartímabili Kýótó. Annars vegar er losun innan viðskiptakerfis ESB, sem er um 40% af heildarlosun Íslands og munar þar mest um losun frá stóriðju. Þessi losun er á sameiginlegri ábyrgð ríkjanna 29. Á hinn bóginn fá einstök ríki úthlutað landsheimildum fyrir losun sem fellur utan viðskiptakerfisins. Þar fær Ísland úthlutað heimildum fyrir 15.327.217 tonnum af CO2-ígildum[1] á tímabilinu 2013-2020. Þessi tala var ákvörðuð út frá sambærilegum reiknireglum og gilda við innbyrðis skiptingu byrða ríkja í ESB. Þetta þýðir að nettólosun frá Íslandi þarf að minnka miðað við losun nú, sem er hægt annað hvort með því að draga frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda eða með því að auka kolefnisbindingu úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu. Ef losun Íslands verður samt yfir settum mörkum getur Ísland keypt heimildir frá öðrum ríkjum, bæði Evrópuríkjum og öðrum ríkjum, m.a. með svokallaðri loftslagsvænni þróunaraðstoð.

Losun Íslands var um 4,47 milljónir tonna árið 2012, sem er síðasta árið þar sem tölur liggja fyrir. Þar af voru um 2,78 milljónir tonna frá uppsprettum utan viðskiptakerfisins. Skv. samningnum við ESB ætti þessi losun að vera að meðaltali um 1,92 milljónir tonna árlega á tímabilinu og þyrfti því nettólosun að minnka um tæplega 31%. Það er svipað og gert var ráð fyrir í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum árið 2010. Reiknað er með að kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu dugi til að mæta þessu markmiði að um það bil helmingi, en hinum hlutanum þurfi að ná með minnkun losunar og hugsanlega kaupum á heimildum.

Í innra samkomulagi ríkja ESB er ekki gert ráð fyrir að ríki nái markmiðum sínum með kolefnisbindingu. Ísland hefur á hinn bóginn þann kost, enda er gert ráð fyrir í Kýótó-bókuninni að ríki geti gefið út sk. bindingareiningar til að ná markmiðum sínum. Kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu nam um 370.000 tonnum af CO2 árið 2012 og mun fara vaxandi á komandi árum, þar sem binding er hæg fyrst eftir gróðursetningu eða sáningu og eykst síðan í nokkur ár eða áratugi, þar til hún stöðvast.

Varðandi losun frá uppsprettum í viðskiptakerfinu, þurfa íslensk stjórnvöld ekki að bera sérstaklega ábyrgð á henni gagnvart Kýótó-bókuninni, heldur er hún á sameiginlegri ábyrgð ríkjanna 29 í heild, þar sem heimildir innan kerfisins ganga kaupum og sölum milli fyrirtækja í mismunandi löndum. Á Íslandi er losun frá 11 aðilum innan viðskiptakerfisins, þ.á m. frá álverum og járnblendiverksmiðjunni og nokkrum fiskimjölsverksmiðjum. Þessir aðilar þurfa að standa skil á heimildum innan viðskiptakerfisins skv. ákvæðum EES-samningsins, en ekki aukalega skv. Kýótó-bókuninni. Losun frá þessum aðilum hefur því ekki áhrif á skuldbindingar Íslands gagnvart Kýótó. Því er ekki þörf á sérstöku ákvæði varðandi losun frá stóriðju innan Kýótó eins og var á 1. skuldbindingartímabilinu, 2008-2012.

Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og þróun losunar

Með samningnum við ESB hefur verið gengið endanlega frá alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum til ársins 2020. Ísland verður með skuldbindingar innan Kýótó-bókunarinnar og verður því í hópi metnaðarfyllstu ríkja heims í loftslagsmálum. Fyrirtæki á Íslandi búa við sambærilegt regluverk varðandi losun og önnur fyrirtæki á EES-svæðinu.

Losun á Íslandi náði hámarki árið 2008 og var þá rúmar 5 milljónir tonna af koldíoxíðs-ígildum. Hún hefur minnkað nokkuð síðan, eða um rúmlega 10%. Í aðgerðaáætlun Íslands frá 2010 var gert ráð fyrir að íslensk stjórnvöld þyrftu einkum að draga úr losun frá uppsprettum utan viðskiptakerfis ESB, þ.e. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og fleiri geirum. Losun Íslands (án stóriðju og með kolefnisbindingu) var um 2,74 milljónir tonna af CO2-ígildum árið 2008 og 2,21 milljónir tonna af CO2-ígildum árið 2012, sem er um 19% lækkun á þessu tímabili. Markmiðið í aðgerðaáætluninni var að heildarlosun Íslands verði undir 1,65 milljónum tonna CO2-ígilda (án stóriðju og með kolefnisbindingu) árið 2020 (sjá mynd). Á fyrstu árum áætlunarinnar hefur þessi losun verið ívið undir áætlun.

 Losun gróðurhúsalofttegunda - línurit

Rétt er að endurskoða þessi markmið og aðgerðaáætlunina í heild nú þegar skýrari töluleg markmið liggja fyrir. Á næsta ári á Ísland einnig að gera grein fyrir markmiðum sínum fyrir árið 2030 í tengslum við nýjan alþjóðlegan loftslagssamning, sem ljúka á við í lok árs 2015. Aðgerðir Íslands í loftslagsmálum og mat á bestu og hagkvæmustu kostum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu þurfa að vera í stöðugri endurskoðun og munu stjórnvöld láta slíkt mat fara fram í kjölfar samnings Íslands við ESB.


[1] Í Kýótó-bókuninni eru nú tilteknar 7 lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum. Langmest munar þar um koldíoxíð (CO2), en sumar aðrar lofttegundir sem eru losaðar í minna mæli hafa engu að síður mikinn hlýnunarmátt; áhrif þeirra eru umreiknuð með sérstökum stuðlum í CO2-ígildi, sem er sú eining sem notuð er varðandi skuldbindingar ríkja í Kýótó.

Birt:
19. júní 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ísland og ESB semja um sameiginlegt markmið innan Kýótó-bókunarinnar“, Náttúran.is: 19. júní 2014 URL: http://nature.is/d/2014/06/19/island-og-esb-semja-um-sameiginlegt-markmid-innan-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: