Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt Orkuveitu Reykjavíkur undanþágu til tveggja ára frá hertum kröfum í reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti sem taka gildi 1. júlí næstkomandi, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Með þessum hertum kröfum er óheimilt að fara yfir heilsuverndarmörk vegna brennisteinsvetnis í andrúmslofti en í gildandi reglugerð er heimilt að fara fimm sinnum á ári yfir þessi mörk. Undanþágan felur það í sér að Orkuveita Reykjavíkur skal uppfylla heilsuverndarmörkin eins og þau er í dag, þ.e. 50 µg/m3 sem sólarhrings meðaltal, og má einungis fara yfir þau mörk fimm sinnum á ári.

Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að svokölluðu SulFix verkefni sem felur í sér að brennisteinsvetni í þéttivatni frá virkjun er dælt niður í jarðlög þar sem brennisteinninn fellur út sem súlfíðsteindin pýrít. Hér er um að ræða tilraunaverkefni sem ætlað er að hafa í för með sér umhverfislegan ávinning umfram hefðbundnar hreinsunaraðferðir þar sem hún lækkar ekki aðeins magn brennisteinsvetnis í andrúmslofti heldur einnig sýrustig í niðurdælingarvatni. Ráðuneytið setur það skilyrði fyrir undanþágunni að fyrir 1. júlí 2015 ákveði Orkuveita Reykjavíkur hvort SulFix verkefninu verði haldið áfram eða hvort ráðist verði í aðrar lausnir við hreinsun á brennisteinsvetni, alfarið eða samhliða. Kröfur reglugerðarinnar um styrk brennisteinsvetnis skulu vera uppfylltar frá og með 1. júlí 2016.

Ráðuneytið telur rétt að reyna umrædda leið við niðurdælingu brennisteinsvetnis. Í umsögn Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur kemur fram að jákvætt sé að reyna niðurdælingu og Umhverfisstofnun bendir á í sinni umsögn að niðurdæling sé umhverfislega betri kostur en hefðbundnar hreinsiaðferðir.

Þau skilyrði sem Orkuveita Reykjavíkur þarf að uppfylla eru m.a. að skila Heilbrigðisnefnd Suðurlands og Umhverfisstofnun framvinduskýrslu um stöðu SulFix verkefnisins 15. janúar á næsta ári, þ.e. um hálfu ári áður en ákvörðun verður tekin um það hvort SulFix verkefninu verði haldið áfram eða/og farið verður í aðrar hreinsunaraðferðir. Jafnframt skulu framkvæmdir við hreinsun á brennisteinsvetni tímasettar þannig að ákvæði reglugerðarinnar verði að fullu uppfyllt frá og með 1. júlí 2016. Þá er Orkuveitu Reykjavíkur gert að birta loftgæðaupplýsingar á aðgengilegan og skiljanlegan hátt að höfðu samráði við Umhverfisstofnun og tryggja þannig að almenningur sé ætíð upplýstur um loftgæði á áhrifasvæði Hellisheiðarvirkjunar hvort sem um er að ræða almennar upplýsingar fyrir íbúa, viðkvæma hópa eða þá sem stunda útivist á svæðinu. Enn fremur skal upplýsa almenning um líklega útbreiðslu brennisteinsvetnis á áhrifasvæði Hellisheiðarvirkjunar þegar útlit er fyrir að styrkur brennisteinsvetnis fari yfir tilkynningarmörk.

Ljósmynd: Hellisheiðarvirkjun, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
June 6, 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Orkuveitan uppfylli hert skilyrði um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti fyrir 1. júlí 2016“, Náttúran.is: June 6, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/06/06/orkuveitan-uppfylli-hert-skilyrdi-um-styrk-brennis/ [Skoðað:June 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: