Veturinn 2012, þegar ég gekk með frumburðinn, fékk ég heimagert innigróðurhús í jólagjöf frá ástmanninum. Í ónotuðum fataskáp, sem staðsettur var í stofunni, kom hann upp björtu litlum varmareit, þakti hann að innan með speglandi dúk og lýst hann upp með stórri peru (sem heitir CFL 240V 6400K ef einhver hefur áhuga). Uppfrá því skein sól í skápnum 12 tíma á sólarhring. Í seinni tíð hefur líka bæst við vifta.

Þennan vetur gátum við á hverri stund horfið inn í lítið sýnishorn af hitabeltisparadís. Fullt af lífi fór á kreik, tugir lítilla fræja af alls kyns jurtum. Avókadótré, bananaplanta, tómata og paprikuplöntur, basilikkur, engifer, bygg, baunir, fíkjutré, jafnvel sítrónusteinn sem ein lítil frænka tróð í einn pottinn gaf af sér fallega smájurt með dökkgrænum laufum.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta sýnishorn af ræktun sem við, þó, tókum okkur fyrir hendur í þessu litla rými hafi skilað af sér vænni uppskeru. Tilganganginum var fullkomnlega náð með því einu að geta dundað í skápnum að vild. En skápurinn gaf margfalt.

Ég naut uppskeru strax eftir fæðingu í marsmánuði. Það var árla vors en inni í gróðurskáp gat ég nælt mér í ferska eldrauða dísæta tómata beint af plöntu, beint frá skápabónda. Í vor höfum við séð byggabörnin okkar, uppskeru af einu fræi af hvítri byggtegund, mynda græðlinga í matjurtargarðinum. 

Núna er gróðurskápurinn enn að verki. Engiferin á þar sinn samastað og fersk basilikka er staðalhráefni í pastarétti. Metersháar avókadóplöntur gefa skápnum hressandi svip. Bananaplöntunar eru núna orðnar sex talsins. Einnig vex þar á ógnarhraða sykurlauf sem við þurkum og notum sem sætu í te.

Mynd: Fyrsta útgáfa gróðurskápsins árið 2012. Nýgræðlingar, tómataplöntur og avókadósteinar að vakna.

Birt:
1. júní 2014
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Skápabóndi“, Náttúran.is: 1. júní 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/31/skapabondi/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. maí 2014

Skilaboð: