Fram, fram, fylking
Markmið: Söngur, skemmtun, hreyfing.
Aldursmörk: Frá 5 ára
Leiklýsing:
Fram, fram fylking,
forðum okkur háska frá
því ræningjar oss vilja ráðast á.
Sýnum nú hug, djörfung og dug.
Vakið, vakið vaskir menn
því voða ber að höndum.
Sá er okkar síðast fer
mun sveipast hörðum böndum.
Tvö börn eru ræningjarnir. Þau standa andspænis hvort öðru og haldast í hendur þannig að þau mynda hlið (halda höndunum uppi) sem hin börnin ganga í gegnum í halarófu um leið og þau syngja lagið. Þegar sungið er „sveipast hörðum böndum“ taka ræningjarnir þann til fanga sem er að fara í gegnum „hliðið“ þá stundina. Þeir fara með fangann afsíðis og láta hann velja á milli einhverra tveggja, lokkandi hluta, eða t.d. ávaxta sem þeir höfðu fyrirfram ákveðið. Þannig gæti t.d. annar ræninginn fengið alla sem velja epli en hinn alla sem velja appelsínur. Fanginn fer síðan aftur fyrir þann ræningja sem hann valdi og stendur þar uns leiknum lýkur. Síðan er lagið sungið aftur og halarófan fer aftur af stað og næsti fangi gripinn. Þannig myndast smám saman röð fyrir aftan ræningjana, og þegar allir hafa verið teknir til fanga er farið í reiptog, reyndar án reipis, en ræningjarnir haldast í hendur og liðsmenn þeirra toga í þá og hvern annan. Það liðið sem tekst að toga hitt til sín vinnur. Auðvitað er svo líka hægt að hafa reipi við hendina og nota það. Muna að allir eiga að syngja með, líka fangarnir.
Birt:
Tilvitnun:
Vísindavefurinn „Fram, fram, fylking“, Náttúran.is: 25. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/25/fram-fram-fylking/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. ágúst 2014