Landvernd mótmælir harðlega umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 meðan kærumál vegna annarra leyfisveitinga standa yfir og eignarnámsmál eru óútkljáð.

Suðurnesjalína 2 er 220 kílóvolta (kV) háspennulínu frá Hamranesi í Hafnarfirði að Rauðamel norðan Svartsengis, en fyrirtækið sendi umsókn sína um framkvæmdaleyfi í dag til sveitarfélaganna Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Voga. Í desember sl. gaf Orkustofnun Landsneti leyfi til að reisa og reka línuna.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd kærðu þessa ákvörðun Orkustofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hinn 5. janúar 2014, þar sem þess var krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að Orkustofnun yrði gert að meta flutningsþörf fyrir raforku á umræddri línuleið og krefja framkvæmdaraðila um að líta til fleiri valkosta við kerfisútfærslu línunnar, þ.m.t. til jarðstrengja. Samtökin töldu ekki nægilega vel rökstutt hvers vegna þyrfti raflínu með svo mikilli flutningsgetu (220kV). Ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður í málinu.

Í frétt á vefsíðu Landsnets kemur fram að stefnt sé að því að framkvæmdir hefjist um mitt þetta ár og þeim ljúki í árslok 2015. Jafnframt fer fyrirtækið fram á að sveitarfélögin fjögur veiti umbeðið framkvæmdaleyfi við fyrsta tækifæri þar sem nauðsynlegt sé að hefja framkvæmdina sem fyrst þar sem þörfin á Suðurnesjalínu 2 sé aðkallandi. Þetta er fjarri lagi, enda er fyrirhugað að reka línuna fyrst um sinn á lægri spennu, eða 132kV. Reising 220kV háspennulínu er því óþörf við núverandi aðstæður.

Landvernd hvetur sveitarfélögin til að fresta afgreiðslu málsins þar til niðurstaða kærumála liggur fyrir. 

Ljósmynd: Háspennumastur, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
14. maí 2014
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Landvernd mótmælir harðlega umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2“, Náttúran.is: 14. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/14/landvernd-motmaelir-hardlega-umsokn-landsnets-um-f/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. nóvember 2014

Skilaboð: