Árið 1987 kom út bókin Ásta grasalæknir, líf hennar og lækningar og dulræn reynsla. Bókin er eins konar viðtalsbók, skráð af Atla Magnússyni, þar sem Ásta Erlingsdóttir lýsir lífi sínu og lækningum í eigin orðum ásamt því sem Atli hefur skráð vitnisburði fólks sem til hennar leituðu. Í bókinni er áhugaverður kafli um notkun á ýmsum tilfallandi jurtum sem finna má í náttúrunni og læt ég hann fylgja hér í heilu lagi, lesendum til gagns og gamans.

Lífgrös við farinn veg

„Það þarf langa reynslu til þess að geta þekkt þær jurtir sem yfir lækningamætti búa og eiginleika hverrar þeirra. Og ekki er nóg að vita að jurtin hafi áhrif gegn tilteknum sjúkdómi, það þarf líka að kunn aða tilreiða hana í réttum hlutföllum ásamt öðrum jurtum. Einnig eru til hættulegar jurtir. Ég veit um jurt sem framkallað getur fósturlát og aðra þekki ég sem banað gæti fullfrískri manneskju á skömmum tíma, þótt notuð í takmörkuðum mæli hafi hún einstæða lækningaeiginleika. Því hef ég veigrað mér við að gefa fólki miklar upplýsingar um þetta. En það eru samt ýmsar jurtir sem hver og einn getur tekið af og notað og haft gott af á margan hátt. Ég skal gjarna nefna hér nokkrar þeirra, einkum þær sem henta til drykkjargerðar.

Einhvern verður kannske hissa ef ég nefni fífilinn, en úr rótum hans má búa til nokkurs konar kaffi. Þá eru ræturnar bakaðar og muldar og svo hellt upp á með vanalegum hætti. Þetta er þó nokkuð rammt. Blöð fífilsins eru líka gott meðal við alls konar ofnæmi. Með þessu er gott að hafa birki.

Úr birki er mjög gott að gera te. Þá skal taka blöðin af ungum birkisprotum, meðan þau enn eru dálítið límkennd og sjóða þau, gjarna ásamt baldursbrá eða vallhumli, Maríustakk eða mjaðarjurt, sem er styrkjandi. Slíkt te er mjög róandi. Einnig má taka börk og mosafléttur sem á birkinu vaxa og nota þetta á sama hátt, en það er nokkuð barkandi. Birki er alltaf gott fyrir slímhúðina. Það er vallhumall einnig, auk þess sem hann er bólgueyðandi. Te má gjarna gera úr vallhumlinum líka og er þá rétt að sjóða með honum aðalbláberjalyng.

Blóðbergið er líklega einna þekktast af þeim jurtum sem notaðar haf verið til tegerðar hér á landi í aldanna rás. Það hefur mjög góð áhrif á húðina, en getur verið varasamt sé fólk með einhverja magakvilla. Þá er ráðlegt að drekka aðeins lítið af því. Enn má nefna beitilyng, sem er prýðilega fallið til þess að laga úr því te og þá helst að hafa mjaðarjurt og blágresi með. En það er með beitilyngið eins og blóðbergið að magaveikir meiga gæta sín á því, því það eykur sýrumyndum í maganum. Sama á við um sortulyng, eini og rjúpnalauf. Rætur og lyng eru samandragandi, en á móti því verka þessar opnandi jurtir, sem ég hef nefnt að sjóða skuli með – Maríustakkur, mjaðarjurt og baldursbrá. Án þeirra yrði teið líka of barkandi og sterkt. Þó ræð ég krabbameinssjúklingum alltaf frá því að drekka opnandi jurtir.

Dálítið nota ég af sjávarjurtum, þótt ekki sé það mikið. Oft ráðlegg ég krabbameinssjúklingum þaratöflur og söl til inntöku ásamt grasalyfi sem ég sjálf læt í té. Líka nota ég silfurmuru með ýmsu öðru, ekki þó fyrir krabbameinssjúklinga, heldur hjartasjúklinga. Hún er sögð góð fyrir hjartað, þótt mótsögn virðist vera í því fólgin að hún er talin þykkja blóðið. Gulmuru má einnig nota.

Hvönnin er gömul lækningajurt og ég man að faðir minn hafði á henni mikla trú. Hann hafði alltaf hvannastóð við svefnherbergisgluggann sinn og við útidyrnar. Hvönnina má vel nota við kvefi og ber þá að sjóða hana í vatni, uns af verður sterkur lögur, og anda að sér heitri gufunni. Um leið er ágætt að taka inn eins og eina matskeið af leginum en varla meira.

Af sveppum tek ég ekki, þótt sagt hafi verið að þeir hafi verið „pensilín“ síns tíma og þá rifjast upp fyrir mér sú saga af Stefaníu ömmu minni að hún hafi skafið myglusveppi af sláturtunnu, hitað þá yfir eldi og látið þá sjúklinga sem þjáðust af lungnakvefi og hósta anda að sér gufunni. Þetta mun hún hafa gert með góðum árangri. Víst má slíkt þykja merkilegt, því þá vissi enginn um fúkkalyfin enn.

Þetta eru fáein dæmi, meir til gamans en að ég vilji með þessu þykjast vera að gefa fólki uppskriftir. En þeir geta reynt þetta sem áhuga hafa á og ég held að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum.“

Lyf við algengum kvilla

„Ég nefndi áðan birkite og gat um heilnæm og róandi áhrif þess. En ég get vel getið þess að birkið er líka gott við mjög algengum kvilla sem sækja vill á karlmenn, en það er blöðruhálskirtilsbólga. Þar sem öllum ætti að vera innan handar að útvega sér þær jurtir sem þarf í góða inntöku við þessu skal ég gefa hér ráð um gerð hennar. Í slíka inntöku er rétt að hafa helminginn klóelftingu en afganginn að jöfnum hlutum birki, blágresi og vallhumal. Þetta er látið í pott eða ketil með álíka vatnsmagni og notað er í vanalegt te og hitað við suðumark í svo sem fimmtán mínútur. Þetta er svo drukkið í staðinn fyrir kaffi eða te, tveir til þrír bollar á dag, og batamerkin munu skjótt koma í ljós. Þetta er ekki eins kröftugt og þær inntökur sem ég sjálf bý til, þegar ég útvega fólki við þessu. Ég sýð inntökuna miklu lengur, kannske tvo eða þrjá klukkutíma, svo hún verður megnari og sterkari og þá er auðvitað ekki lengur um te að ræða. Þá er ekki ráðlegt að drekka nema svo sem hálfan bolla á degi hverjum. Þeir sem vilja fylgja þessu ráði ættu þó að temja sér að drekka þetta í all langan tíma, til þess að áhrifin verði varanleg og mín reynsla er sú að fólki fer að finnast þetta mjög gott, líkaminn fer smám saman að biðja um þetta. Hliðaráhrifin eru þau að húðin verður ákaflega slétt og falleg og það svo stundum er til þess tekið. Fjallagrös eru líka mjög heilnæm fyrir húðina, eins og blóðbergið, sem ég áður minntist á.

En konur geta líka notað sér þessa uppskrift, þær sem þjást af móðurlífbólgum eða þá bl0ðrubólgu. Eini munurinn er sá að þá er rétt að bæta blágresi í að einum tíunda hluta og nokkru af mosafléttum. Þetta gefur þá mjög góða raun. Allar þær jurtir sem til þarf er auðvelt að útvega sér og geyma. Aðeins verður að gæta þess að geyma jurtirnar hverja út af fyrir sig og láta þær ekki liggja saman.“

(Atli Magnússon, Ásta grasalæknir. Líf hennar og lækningar og dulræn reynsla, bls. 97-100. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1987.)

Birt:
2. maí 2014
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Lífgrös náttúrunnar“, Náttúran.is: 2. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/01/lifgros-natturunnar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 1. maí 2014
breytt: 2. ágúst 2014

Skilaboð: