Landvernd, önnur umhverfisverndarfélög og ferða- og útivistarfélög efna til grænnar göngu 1. maí í samstarfi við stéttarfélög. Efnt er til göngunnar til að krefjast þess að almenningur hafi áfram, eins og hingað til frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn verði virtur. Að undanförnu hefur verulega borið á tilraunum til þess að takmarka sjálfsagðan almannarétt þjóðarinnar, t.d. með gjaldtöku við náttúruperlur og tillögu um náttúrupassa.

Þátttakendur safnast saman um kl. 13:00 við hestinn á Hlemmi. Gengið verður aftast í 1. maí göngu stéttarfélaganna sem hefst kl. 13:30. Að dagskrá lokinni á Ingólfstorgi kl. 15 verður gengið að Alþingishúsinu þar sem þúsund grænum fánum verður stungið niður. Göngumenn eru hvattir til að klæðast grænu.

Náttúran er ein dýrmætasta sameign þjóðarinnar. Náttúran, með víðernum og fegurð landsins er einnig orðin okkar helsta tekjulind með örum vexti í ferðaþjónustu. Samhliða því hafa forráðamenn landsvæða takmarkað för fólks um náttúruperlur með gjaldtöku við Geysi og Kerið í Grímsnesi. Einnig er unnið að tillögum um svonefndan náttúrupassa, sem er útfærsla á gjaldi fyrir að skoða náttúru Íslands. Komið hefur fram í skoðanakönnunum að meirihluti landsmanna er mótfallinn slíku gjaldi. Þá hefur þess orðið vart í auknum mæli að landeigendur reyni að takmarka för fólks með því að loka vegum og fornum leiðum með keðjum og hliðum. Almannarétturinn og ferðafrelsið eru því í greinilegri hættu. Krafa grænu göngunnar í ár er að þau beri að vernda og virða.

Eftirfarandi félög standa að grænu göngunni 2014: Landvernd, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Ungir umhverfissinnar, Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Fuglavernd, Framtíðarlandið, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruvaktin, Eldvötn, Umhverfisvaktin við Hvalfjörð, Græna netið, Skotvís, SAMÚT og 4x4.

Ljósmynd: Græna ganga, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.


    Tengdir viðburðir

  • Græn ganga

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Fimmtudagur 01. maí 2014 13:00
    Lýkur
    Fimmtudagur 01. maí 2014 15:00
Birt:
1. maí 2014
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Græn ganga 1. maí til varnar almannarétti og ferðfrelsi“, Náttúran.is: 1. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/28/graen-ganga-1-mai-til-varnar-almannaretti-og-ferdf/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. apríl 2014
breytt: 1. maí 2014

Skilaboð: