Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti Kaffitári í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Hvolsskóla á Hvolsvelli útnefndir Varðliðar umhverfisins.

Kuðungurinn
Kaffitár hlýtur Kuðunginn fyrir öflugt umhverfisstarf fyrirtækisins allt frá stofnun þess árið 1990. Segir meðal annars í rökstuðningi valnefndar að eigendur þess hafi verið brautryðjendur varðandi mengunarvarnir í framleiðslu og umhverfisvottun kaffihúsa auk þess sem þau hafa lagt áherslu á að kaupa hráefni „án krókaleiða“, beint frá þeim bændum sem rækta það. Kaffihús Kaffitárs hafi verið þau fyrstu hér á landi til að fá vottun umhverfismerkisins Svansins árið 2010 og sem ein vinsælasta kaffihúsakeðja landsins hafi fyrirtækið þannig orðið öflugur boðberi umhverfisvænna hátta meðal almennings. Hugað sé að umhverfismálum allt frá hinu smæsta til hins stærsta, hvort sem um sé að ræða borðtuskur sem notaðar séu á kaffihúsunum eða mengunarvörnum kaffibrennslunnar.

Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem Kaffitár hlaut, er að þessu sinni eftir listamanninn Bjarna Sigurðsson. Þá öðlast fyrirtækið rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Varðliðar umhverfisins
Nemendur í Hvolsskóla fengu útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir mælingar sem sjöundu bekkingar hafa gert á jökulsporði Sólheimajökuls frá árinu 2007 með hjálp GPS punkta. Mælingarnar eru merktar inn á mynd svo hægt sé að sjá og sýna öðrum hvernig jökullinn hopar ár frá ári. Í umsögn dómnefndar segir að um sé að ræða metnaðarfullt verkefni sem geri nemendum kleyft að rannsaka og upplifa á eigin skinni hvað áhrif loftslagsbreytingar hafa á nærumhverfi þeirra. „Í verkefninu takast nemendur á við raunhæf viðfangsefni, læra vísindaleg vinnubrögð um leið og það sýnir að grunnskólanemendur geta auðveldlega stundað rannsóknir á umhverfinu á einfaldan hátt.“

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.

Sjá öll kaffihús Kaffitárs hér á Grænum síðum.

Ljósmyndir: efri: starfsmenn frá Kaffitári með Kuðunginn, neðri: varðliðar umhverfisins, nemendur Hvolsskóla, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
25. apríl 2014
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Viðurkenningar á Degi umhverfisins“, Náttúran.is: 25. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/25/vidurkenningar-degi-umhverfisins/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. apríl 2014

Skilaboð: