Nýjar norrænar næringarráðleggingar
Vísindamenn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala (RÍN) áttu stóran þátt í útgáfu nýrra Norrænna næringarráðlegginga (NNR) sem komu út í byrjun mars sl.
Norrænu ríkin hafa um árabil átt samvinnu um útgáfu heilstæðra næringarráðlegginga og byggjast þær á vinnu rúmlega hundrað sérfræðinga undir forystu vinnuhóps á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Inga Þórsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild og forseti Heilbrigðisvísindasviðs og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við sömu deild og forstöðumaður Rannsóknastofu í næringarfræði, áttu sæti í vinnuhópnum fyrir Íslands hönd. Inga átti einnig sæti í hópnum þegar ráðleggingar voru gefnar út árin 1996 og 2004.
Auk Ingu og Ingibjargar hefur fjöldi vísindamanna við Háskóla Íslands átt þátt í gerð nýju ráðlegginganna. Þeirra á meðal eru:
- Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent í næringarfræði við Menntavísindasvið
- Alfons Ramel, vísindamaður við RÍN
- Bryndís Eva Birgisdóttir, dósent í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild
- Gunnar Sigurðsson, prófessor í lyflækningum við Læknadeild
- Ingibjörg Harðardóttir, prófessor við Læknadeild
- Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild
- Þórhallur Ingi Halldórsson, dósent í næringarfræði og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar
Í nýju Norrænu næringarráðleggingunum er lögð áhersla á heildarmataræði, gæði hráefnis og uppruna einstakra næringarefna, frekar en að einblínt sé á t.d. hlutfall fitu og kolvetna fæðunnar. Nýju ráðleggingarnar skjóta því frekari stoðum undir fyrri útgáfur. Þar er jafnframt að finna ráðleggingar varðandi hreyfingu og upplýsingar um sjálfbæra neyslu matvæla.
Norrænu næringarráðleggingarnar eru enn helsti grundvöllur næringarráðlegginga í löndunum og þær veita neytendum nauðsynlega þekkingu um mataræði. Þær eru jafnframt hornsteinn samnorræna matvælamerkisins Skráargatsins, sem ætlað er að leiðbeina neytendum um bestu og heilnæmustu kosti á markaðnum hverju sinni.
Norrænu ráðleggingarnar eru fáanlegar í heild sinni í opnum aðgangi. Þær má nálgast með því að smella hér.
Birt:
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Nýjar norrænar næringarráðleggingar“, Náttúran.is: 23. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/23/nyjar-norraenar-naeringarradleggingar/ [Skoðað:28. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.