Á fjölmennum aðalfundi Garðyrkjufélags Íslands sem haldin var í Síðumúla 1, þann 8. apríl s.l. voru samþykktar eftirfarandi ályktanir.

Ályktun um kynbætur á yndisplöntum

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands haldinn 8. apríl 2014 hvetur stjórnvöld til að standa að stefnumótun um kynbætur á yndisplöntum í samvinnu við áhugamannafélög, garðplöntuframleiðendur og opinberar stofnanir. Samstarf áhugafólks og hins opinbera er forsenda árangurs til lengri tíma litið.

Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að stuðla að kynbótum á yndis-/garðplöntum í samstarfi áhugafólks, fagstofnana og garðplöntuframleiðenda til ræktunar á úrvalsyrkjum fyrir íslenskar aðstæður.

Ræktun og innflutningur garðplantna hefur stóraukist á undarförnum árum, bæði í magni og fjölbreytileika. Með markvissu kynbótastarfi er hægt að auka enn frekar fjölbreytileika yndisplantna sem þola íslenska veðráttu og aðstæður. Mikil auðlind er falin í íslenskum efniviði sem ástæða er til að rækta og kynbæta til yndisauka í garðlöndum og bæjarumhverfi.

Ályktun um mótun landslags og ræktun í þéttbýli

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands haldinn 8. apríl 2014 hvetur opinbera aðila til að vinna að stefnumörkun um ræktun skjólbelta, yndis-og nytja gróðurs í þéttbýli og skapa með því vistvænna umhverfi.

Svipmót þéttbýlis mótast af samgöngum, byggingum og gróðri. Gróðursetning og val á efniviði í bæjarlandi sveitafélaga skiptir miklu máli til að skapa skjól í íbúðabyggðum, draga úr umferðarnið, auka umferðaröryggi og mynda fagurt og fjölbreytt landslag. Góð og fjölbreytt skjólbelti á opnum opinberum svæðum draga úr þörf á myndun skjólgarða á einkalóðum og gróðursetningar hávaxinna trjátegunda.

Aðalfundurinn hvetur sveitafélög til að móta stefnu til eflingar matvælaframleiðslu og nytjagróurs í þéttbýli og þess sjái merki við gerð aðal-og deiliskipulags. Svæði fyrir matjurtagarða ætluð almenningi verði sérmerkt sem slík á deiliskipulagi í sem nánustu tengslum við hvert íbúðasvæði.

Aukinn áhugi almennings á matjurtarækt í þéttbýli kallar á fleiri, betri og aðgengilegri ræktunarsvæði, s.s. grenndargarða eða garða til ræktunar matjurta og annars nytjagróðurs.

Garðyrkjufélag Íslands býður fram krafta sína til þessara verkefna. Með von um jákvæðar undirtektir og ósk um gleðilegt sumar.

Fyrir hönd stjórnar Garðyrkjufélags Íslands, Þuríður Backman formaður

Ljósmynd: Anna Rósa grasalæknir flytur erindi á aðalfundi Garðyrkjufélags Íslands.

Birt:
22. apríl 2014
Tilvitnun:
Garðyrkjufélag Íslands „Ályktanir aðalfundar Garðyrkjufélags Íslands“, Náttúran.is: 22. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/22/alyktanir-adalfundar-gardyrkjufelags-islands/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: