Virkni snjallrar hönnunar sýnir sig í margfaldri uppskeru.

Margir heillast af hugmyndum vistræktar um samval. Samval (e. guild) er að staðsetja plöntur sem dafna vel saman á sama stað. Þau geta t.a.m. nota ólíkt svæði til að hámarka nýtni, bæði svæðis og næringaefna. Sumar plöntur eru ræktaðar með matvælauppskeru í huga, sumar eru virkjaðar til að draga næringarefni úr jarðveginum, enn aðrar geta verið niturbindandi belgjurtir sem þjóna sem næringarforði fyrir ætiplöntur, aðrar geta laðað að gagnleg skordýr og enn aðrar hindrað komu óæskilegra lífvera. Þegar plöntur eru raðaðar saman með hagsmuni allra í huga, geta þær myndað þetta sniðuga jafnvægi.

Margar bækur hafa verið skrifaðar um þetta, dæmi um það er bókin Carrots love Tomatoes og Roses love Garlic eftir Louise Riotte, og veraldarvefurinn lumar á fjölbreyttum, grafískum og ítarlegum upplýsingum um gott samval.

Dæmi um þekktar samvalsplöntur.

Þrjár systur. Þetta er lýsandi dæmi um ávinning sambands þriggja ætiplantna. Maískorn, kúrbítur og baunir hjálpa hvert öðru. Maísplantan er sterkur burðarbiti fyrir baunaplöntur sem þarf einhvað til að klifra upp. Baunirnar sækja nitur í jarðveginn sem gagnast bæði maísnum og kúrbítnum. Kúrbítur er skriðjurt sem þekur moldina, viðheldur því raka í jarðveginum og kemur í veg fyrir illgresi.

Gulrætur, tómatar og basilika. Það er engin tilviljun að þessar þrjár plöntur bragðist vel saman. Gulrætur og tómatar þrífast vel í svipuðum jarðvegi en nýta hann á mismunandi dýpi. Gulrætur er skuggsælt rótargrænmeti, tómataplanta þarf hins vegar mikla sól. Basilikka laðar að skordýr til að frjóvga tómatana og sýnt hefur verið fram á meiri uppskeru tómata ef basilikku er plantað nálægt.

Margur fróðleikurinn um sniðugt samval gæti hentað íslenskum aðstæðum. En íslensk flóra býður einnig upp á ófyrirsjáanlega möguleika og nú er ekki seinna vænna en að fara að prófa sig áfram í íslenskum aðstæðum.

Endilega sendið okkur línu með hugmyndum um íslenskar samvalsplöntur!

Birt:
13. mars 2015
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Sniðugt samval“, Náttúran.is: 13. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2014/04/10/snidugt-samval/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. apríl 2014
breytt: 13. mars 2015

Skilaboð: