Gæðamerki fyrir jafnrétti í leikskólum og grunnskólum?
Norðurlandaráð vill umbuna leikskólum og grunnskólum sem stuðla að jafnrétti og vinna gegn mismunun með innleiðingu norræns gæðamerkis fyrir jafnræði og jafnrétti. Markmiðið er að efla þekkingu um kyn og jafnrétti og einnig að koma á jafnréttisstefnu í skólageiranum.
„Tilgangur gæðamerkisins er að koma jafnræðis- og jafnréttismálum á dagskrá og auðvelda börnum og ungmennum að taka sjálfstæðar ákvarðanir á eigin forsendum, án þess að láta stjórnast af staðalímyndum um mismunandi hlutverk og æskilega hegðun kynjanna,“ segir Satu Haapanen, fulltrúi í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs.
Gæðamerkið sem innlegg í jafnréttisstarf
Samkvæmt skýrslum Norrænu ráðherranefndarinnar um kyn og skólastarf er of algengt í uppeldisstarfi á Norðurlöndum að börn hljóti mismunandi meðhöndlun á forsendum líffræðilegs kyns. Vel þekkt dæmi er mismunandi viðmót gagnvart „þægum stúlkum“ og „fyrirferðarmiklum drengjum“. Þessu vill Norðurlandaráð breyta og leggur því til að Norræna ráðherranefndin innleiði norrænt gæðamerki (vottun), eða aðra samnorræna aðgerð, í umbunarskyni fyrir markvisst jafnræðis- og jafnréttisstarf í leik- og grunnskólum.
Þá telur Norðurlandaráð rétt að láta greina og kortleggja norræn úrræði og bestu aðferðir út frá kynjasjónarmiðum í leikskólum og grunnskólum. Norðurlandaráð leggur ennfremur til að verkefnið yrði hluti af Norrænu samstarfsáætluninni um jafnréttismál fyrir tímabilið 2015–2018, og að markmiðum þess yrði komið að í námsefni leik- og grunnskólakennara.
Ljósmynd: Börn að leik, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Gæðamerki fyrir jafnrétti í leikskólum og grunnskólum?“, Náttúran.is: 9. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/09/gaedamerki-fyrir-jafnretti-i-leikskolum-og-grunnsk/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.