Ekki verður ofsögum sagt um mikilvægi býflugunar í vistkerfinu. Býflugur eru mikilvægustu frjógjafar grænmetis og ávaxtaplantna í heiminum og því ein helsta undirstaða í fæðuneti heimsins.

Stórtækur býflugnadauði (CCD) undanfarinnar ára ógnar matvælaöryggi mannkynsins. Okkur ber að taka þessum fregnum alvarlega

Þriðjungur matvælaræktunar okkar er háð frjóvgun býflugna.

Þriðjungur býflugnabúa deyr ár hvert.

Það þarf ekki mikla stærðfræðinga til að komast að raun um að breytinga er þörf. Býflugur hafa unnið með okkur frá örófi alda, til að viðhalda sínu lífi og um leið okkar. Við verðum að vinna með þeim, ekki gegn þeim.

Býflugur eru stórkostlegar lífverur og býflugnabú undravert samfélag. Lærdómsritið Bera bý frá árinu 1972 bæði yndis og fróðleikslesning um heillandi líf býflugna, samskipti þeirra og samfélag.

Spegill Ríkisútvarpisins hefur fjallað um býflugnadauða í þaula og hægt er að lesa og hlusta hér: 1. þáttur og 2. þáttur.

Hægt er að rekja fækkun býflugna til loka síðari heimstyrjaldar, sem markar upphaf á stórtækum iðnaðarlandbúnaði og almennri notkun á skordýraeitri. Ástæðurnar eru þó margfaldar og allar samtengdar. Ég bendi hér á upplýsandi og góðan fyrirlestur Mariu Spivak sem rekur ástæðu býflugnadauða og hvað sé til ráða. Já, hvað er hægt að gera?  Maria nefnir tvær borðliggjandi lausnir sem við öll getum tekið til okkar:

1. Gróðursettu blóm. Taktu vel á móti býflugum með því að umvefja garðinn þinn blómum sem þær nærast á.

2. Ekki eitra garðinn þinn. Skordýraeitur deyðir allt örverulíf í garðinum þínum og brýtur niður náttúrulegt kerfi þess. Ef sjúkdómar af einhverju tagi herja á garðinn þinn, ætti að líta ástæðu þess og finna svo lausnir í lífrænum vörnum.

Önnur lausn felst í fjölþættingu landbúnaðarins; að stöðva það niðurbrot sem einhæfur iðnaðarlandbúnaður hefur í för með sér og byggja upp nýtt nærandi fjölþætt sívaxandi vistkerfi. Um það snýst einmitt vistrækt!

Svo væri ekki úr vegi að gerast býflugnabóndi! Sífellt fleiri taka upp á þessari gefandi iðju en Býflugnaræktendafélag Íslands heldur úti fróðlegri síðu þar sem allar helstu upplýsingar um býflugnarækt og býflugnaræktendur hérlendis. 

Sjá einnig: Flugurnar og blómin.

Ljósmynd: Býfluga á Valurt, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
8. apríl 2014
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Bjargvætturinn býflugan“, Náttúran.is: 8. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/08/bjargvaetturinn-byflugan/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: