Íbúar í þéttbýli eiga að geta losað plast, gler og málma nálægt heimilum sínum samkvæmt nýju frumvarpi um meðhöndlun úrgangs. Þá eiga þeir sem flytja inn og framleiða drykkjavörur að koma upp skilakerfi fyrir umbúðir þeirra.

Frumvarpið er lagt fram til að innleiða Evróputilskipun um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt því er sveitarfélögum skylt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og gera áætlanir til að koma í veg fyrir myndun hans. Framleiðendum og innflytjendum rafhlaðna og rafgeyma verður skylt að skrá sig í skráningarkerfi. Þá verður úrvinnslugjald lagt á raftæki og Úrvinnslusjóður sér um söfnun þeirra. Nú þarf fólk að losa sig við gler, plast og málma á endurvinnslustöðum, en samkvæmt frumvarpinu eiga þeir sem búa í þéttbýli að geta gert það nálægt heimilum sínum. Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga segir að það eigi við um þessa löggjöf eins og aðra að stundum hættir stjórnvöldum ríkisins og Alþingi til að skipa sveitarfélögum í of miklum smáatriðum fyrir því hvernig eigi að ná markmiðunum.

Guðjón bendir á að sveitarfélög hafi misjafnt fyrirkomulag á pappírssöfnun. Sum skyldi fólk til að nota bláar tunnur meðan önnur, til dæmis Reykjavík, gefi íbúum kost á að óska eftir þeim ef þeir vilja. Sveitarfélögin eigi að hafa val og svo segi íbúar sína skoðun í kosningum.

„Það auðvitað getur orðið kosningamál í sveitarfélögum hvort þetta sé leiðin sem íbúar vilja eða ekki. En þá þurfum við auðvitað líka að greina hvað það kostar íbúana að fá sér fleiri sorpílát.“

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því að í stað þess að drykkjarvöruumbúðir með skilagjaldi fari í Endurvinnsluna eiga innflytjendur og framleiðendur að koma sér um eigin skilakerfi.Guðjón segir erfitt að sjá að slíkt kerfi virki betur en núverandi kerfi. Ekki sé ljóst hvernig eigi að ná ýmsum markmiðum í lögunum, meðal annars að helmingur úrgangs verði endurnýjanlegur.

„Það má segja að úrgangsmálin séu of mikið á hendi lögfræðinga eins og staðan er í dag og það er þörf á aðeins breyttri nálgun.“

Grafík: Endurvinnsluhringrásin, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir, Náttúran.is.

Birt:
7. apríl 2014
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Uppruni:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Auknar kröfur um úrgang og endurvinnslu“, Náttúran.is: 7. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/07/auknar-krofur-um-urgang-og-endurvinnslu/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: