Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur kynnt ríkisstjórn nánari útfærslu á fyrirhugaðri landsáætlun um uppbyggingu innviða og vernd náttúru á ferðamannastöðum. Frumvarp um áætlunina er í vinnslu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem fer með forræði málsins.

Hvatinn að gerð áætlunarinnar er að stefnumörkun og heildstætt yfirlit yfir þörf á vernd og framkvæmdum á ferðamannastöðum í íslenskri náttúru hefur skort, en slík áætlun er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að ráðast í verndaraðgerðir og takast á við uppbyggingu innviða með skipulögðum hætti.

Frumvarpið kveður á um að gerð verði tólf ára stefnumarkandi áætlun en innan hennar verði þriggja ára verkefnaáætlanir. Má segja að fyrirmyndin sé sótt til samgönguáætlunar sem hefur sannað gildi sitt við að skipuleggja til framtíðar brýn framkvæmdaverkefni á afmörkuðu sviði.

Frumvarpið nær til ferðamannastaða í íslenskri náttúru sem þiggja opinberan stuðning, hvort heldur er innan eignarlands eða þjóðlendna og nær áætlunin til landsins alls. Þá eru lykilhugtökin ferðamannasvæði, ferðamannastaður og ferðamannaleið skilgreind í frumvarpinu. Til að skýra þetta betur má taka dæmi af Friðlandi að fjallabaki sem yrði skilgreint sem eitt ferðamannasvæði. Innan þess eru ferðamannastaðir á borð við Hrafntinnusker og Landmannalaugar og gönguleiðin Laugavegurinn yrði þá skilgreind sem ferðamannleið enda tengir hún saman ferðamannastaði í íslenskri náttúru. Geta ferðamannaleiðir þannig verið af margvíslegum toga, s.s. gönguleiðir, reiðleiðir og hjólaleiðir svo dæmi séu tekin.

Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi tvo hópa, stýrihóp og samráðshóp, sem vinni saman að gerð bæði tólf ára áætlunarinnar og styttri þriggja ára verkefnaáætlana. Stefnumarkandi áætlunin tekur til verndaraðgerða, öryggismála, uppbyggingar og viðhalds innviða í náttúrunni í almannaþágu á ferðamannasvæðum, ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í landinu. Eru meginmarkmið hennar að náttúran sé vernduð, að komið sé í veg fyrir náttúruspjöll og þau lagfærð, dregið sé úr raski af völdum nýtingar, álagi sé dreift og ný svæði metin, uppbygging innviða falli vel að heildarsvipmóti lands og öryggi ferðamanna sé tryggt.

Gert er ráð fyrir að ráðherra umhverfismála, í samráði við ráðherra ferðamála, leggi fram þingsályktun um framkvæmdaáætlunina þannig að hún fái þinglega meðferð. Styttri þriggja ára verkefnaáætlanirnar verði hins vegar unnar í samstarfi ýmissa aðila og tengist frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um fjármögnun.

Áhersla er lögð á víðtækt samráð við gerð framkvæmdaáætlunar og verkefnaáætlana þar sem gert er ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga, ferðaþjónustunnar, landeigenda, opinberra stofnana, háskóla, frjálsra félagasamtaka og hagsmunasamtaka auk ráðuneyta umhverfismála, ferðamála og fjármála.

Ljósmynd: Við Geysi, Árni Tryggvason.

Birt:
5. apríl 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Nánari útfærsla á framkvæmdaáætlun um vernd og uppbyggingu innviða í náttúrunni“, Náttúran.is: 5. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/05/nanari-utfaersla-framkvaemdaaaetlun-um-vernd-og-up/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: