Kaldsjávarkóralla- svæði vernduð
Ísland tilkynnti nýlega fimm verndarsvæði í hafi til OSPAR samningsins en meginmarkmið hans er verndun Norð-Austur Atlantshafsins sem m.a. felst í uppbyggingu verndarsvæða. Alls hefur Ísland tilkynnt fjórtán svæði til samningsins en nýju svæðin einkennast fyrst og fremst af kaldsjávarkóröllum.
Umræða um verndarsvæði í hafi hefur verið áberandi á alþjóðavettvangi síðastliðin misseri en vinna að verndun er töluvert skemmra á veg komin þegar kemur að svæðum í hafi en á landi. Verndarsvæði í hafi geta verið af ýmsu tagi eins og friðlýst svæði á landi. Þau eiga það þó sameiginlegt að þar eru í gildi sérstök ákvæði um vernd og sjálfbæra nýtingu auðlinda sem ganga lengra í verndarátt en almennar reglur, en þýða þó ekki endilega að þau séu lokuð gagnvart fiskveiðum eða annarri starfsemi.Svæðin sem Ísland hefur tilkynnt eru til OSPAR eru ýmist friðlýst af umhverfisyfirvöldum, eða vernduð fyrir veiðum af yfirvöldum sjávarútvegsmála.
Svæðin fimm sem bætast við skráð verndarsvæði Íslands nú eru hið þekkta kórallasvæði Rósagarður auk kóralsvæða á Skeiðarárdjúpi, Lónsdjúpi, Papagrunn og svæðis sem nefnist Lónsdjúp-Papagrunn, en öll eru þau suður af landinu. Þessum svæðum hefur nú verið lokaðfyrir togveiðum með botnvörpu, en þekkt er að slíkar veiðar hafa skaðleg áhrif á viðkvæmt lífríki kórallanna á hafsbotninum.
Kóralsvæði eru talin vera mikilvæg fyrir vistkerfi í djúpsjó og rannsóknir benda til þess að fjölbreytileiki dýralífs á kóralsvæðum geti verið álíka og á kóralrifum í hitabeltinu. Þetta helgast af því að kórallarnir eru margbrotið búsvæði fyrir önnur sjávardýr, sem lifa innan um þá í leit að æti eða skjóli fyrir rándýrum. Rekist veiðarfæri í kórallana brotna þeir og drepast og vegna þess hversu hægt þessar lífverur vaxa getur bati þeirra tekur aldir. Skemmdir hafa því alvarlegar afleiðingar fyrir kórallana sjálfa og þau dýr sem nýta þá sem búsvæði.
Af öðrum verndarsvæðum sem Ísland hefur tilkynnt til OSPAR samningsins má nefna vernduð hafsvæði umhverfis Eldey og Surtsey og svæði umhverfis hverastrýturnar í Eyjafirði. Hægt er að nálgast ítarlegar upplýsingar um þessi og önnur verndarsvæði OSPAR í gegn um gagnagrunn samningsins sem finna má á slóðinni mpa.ospar.org
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Kaldsjávarkóralla- svæði vernduð“, Náttúran.is: 4. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/04/kaldsjavarkorallasvaedi-verndud/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.