Leggur grunn að sjálfbærum lifnaði
Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er klifjuð þekkingu um umhverfismál. Undanfarið ár hefur greinarhöfundur setið þrjá fyrirlestra þar sem hún nefnir vistrækt til sögunnar sem framsækna og raunsæja lausn á umhverfisvanda heimsins.
Kristín Vala hefur unnið að eftirtektarverðum verkefnum um víða veröld og má þar nefna Converge Project þar sem lögð eru drög að ramma um sjálfbær samfélög, Soil Trec þar sem jarðvegur er rannsakaður sem kerfi og nýttur á sjálfbæran máta, Bhutan´s New Development Paradigm, sem sýnir að unnt sé að setja haminguna á oddinn þegar árangur þjóða er metin og síðar hefur myndast alþjóðlegur fjöldahagsmunahópur um slík mál. Hún hefur einnig verið kjörin sem félagi í Vísindaakademíu Evrópu og Noregs. Það eru því sannarlega sterk meðmæli að svo áhrifamikil kona skuli tala fyrir vistrækt.
“Vistrækt leggur grunn að sjálfbærum lifnaði, bæði hvað ræktun varðar og lifnaðarhætti. Lögð er áhersla á að vinna með náttúrunni og rækta það sem hentar á hverjum stað. Ræktunin er á svæðum sem eru hönnuð til þess að gera vinnuna auðvelda, nota orku, vatn, skjól og landslag vel og nýta allt sem til fellur. Áhersla er lögð á að byggja upp jarðveginn. Annar þáttur vistræktar lítur að því að byggja upp samfélag og samkennd, styðja grenndarhagkerfi og vellíðan fólks,” segir Kristín Vala sem stúderaði vistrækt í Noregi. “Ég heyrði fyrst um vistrækt þegar ég bjó í Bristol í Breltandi og kynntist nokkrum vistræktarkennurum. Ég var alltaf á leiðinni á námskeið en ekkert varð úr fyrr en á síðastliðnu sumri.” Hún sá strax mikla speglun við sitt fræðasvið. “Mér fannst gaman að þegar ég fór á námskeiðið, þá fann ég það út að ég hef kennt meirihlutann af fræðilega hlutanum í mínum námskeiðum um sjálfbærni, en hönnunarþátturinn var nýr. Einnig er ég að vinna rannsóknir um jarðveg og sjálfbær samfélög sem tengjast beint hugmyndum vistræktar.”
Kristín Vala telur sig lifa samkvæmt lögmálum vistræktar á margan hátt. Í Noregi hafi hún byrjað að setja upp vistræktargarð og hyggst hún gera nýjan hér á Íslandi í sumar. “Það geta allir tileinkað sér vistrækt í sínu lífi. Ekki þarf stóran garð. Það er líka hægt að rækta út í glugga, á svölum eða palli. Fólk aðlagar sig að sínum aðstæðum.”
Kristín verður einn af kennurum vistræktarnámskeiðs sem fer fram í Alviðru við Sog dagana 14. – 23. Júní nk. Nánari upplýsingar hér.
Einnig mun hún kenna vinnustofum í maí ásamt Anya Gandelman þar sem hannaðir verða garðar í vesturbænum. Nánari upplýsinga er að vænta síðar.
Einnig má benda á viðtalið við Kristínu Völu í Speglinum í gær.
Ljósmynd: Kristín Vala Ragnarsdóttir, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Leggur grunn að sjálfbærum lifnaði“, Náttúran.is: 3. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/03/leggur-grunn-ad-sjalfbaerum-lifnadi/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. apríl 2014