Hvíta húsið í Washington tilkynnti á þriðjudag um diplómatískar aðgerðir, Barack Obama, forseta Bandaríkjanna gegn Íslandi vegna hvalveiða. Sérstaklega er tilgreint að um sé að ræða hvalveiðar Kristjáns Loftssonar og að Íslendingar neyti ekki langreyðarkjöts. Að þessu sinni eru það þó ekki aðeins veiðar Hvals hf. sem eru tilefni aðgerða af hálfu Hvíta hússins heldur einnig alþjóðleg viðskipti með hvalaafurðir.

Alþjóðleg viðskipti með dýr í útrýmingarhættu
Þann 11. febrúar s.l. kynnti Obama forseti um aðgerðir til að stöðva ólögleg viðskipti með dýr í útrýmingarhættu. Tveimur dögum síðar var haldin í London alþjóðleg ráðstefna um slík viðskipti og var í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar lögð þung áhersla á hluverk CITES (Convention on International Trade in Endangered Species sem 180 ríki eru aðilar að). Langreyður og aðrar tegundir hvala sem falla undir Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) eru á lista CITES ásamt fílum og nashyrningum og er milliríkjaverslun bönnuð. Ísland, Japan og Noregur hafa gert fyrirvara við þessa flokkun.

Um svipað leyti komst í hámæli að langreyðarkjöt hefði verið flutt frá Íslandi til Halifax í Kanada, þaðan í lest þvert yfir landið til Vancouver og áfram til Japan með skipi. Málið þótti hið vandræðalegasta fyrir utanríkisráðherra Kanada, John Baird sem ásamt fleiri tignum gestum hafði sótt fyrrnefnda ráðstefnu í London. Nú síðast fóru 2.000 tonn af langreyðarkjöti í skipi beint til Japan án viðkomu í höfnum aðildarríkja CITES. Til öryggis var valið að sigla suður fyrir Afríku, fyrir Góðravonarhöfða, til að forðast Miðjarðarhaf og Súezskurð.

Upphaf deilna um hvalveiðar
Deilur um hvalveiðar má rekja til Umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972 sem samþykkti ályktun um að stöðva allar veiðar í 10 ár. Það var þó ekki fyrr en 1985 að Ísland sigldi þvert á alþjóðlega strauma í umhverfismálum með fjögurra ára áætlun um hvalveiðar í vísindaskyni, 1986 -1989,. Ísland var bundið af samþykkt IWC frá 1982 um stöðvun hvalveiða þar eð Alþingi hafði fellt tillögu um að mótmæla banninu. Fullyrt var að vísindin snérust um að fara kringum þá samþykkt.

Arfleifð landhelgisdeilna
Árið 1985 skoðuðu hérlend stjórnvöld  heiminn í skugga þriggja þorskastríða við flota hennar hátignar, Bretadrottningar. Fullveldisréttur Íslands yfir efnahagslögsögu landsins var í forgrunni en horft fram hjá að í Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna eru ákvæði um sérstaka verndun hvala. Í 65. gr. segir að „Ríki skulu starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skulu, hvað hvali snertir, einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.” Ísland tók því verulega áhættu með að einhliða gefa út kvóta til veiða á 800 hvölum í vísindaskyni.

Bakara fyrir smið
Kaldhæðni örlaganna hagaði því svo til að það voru bandarísk stjórnvöld, Reagan og Bush eldri sem þvinguðu íslensk stjórnvöld til að draga verulega úr fjölda veiddra hvala til sýnatöku í nafni vísinda. Þau hótuðu viðskiptaþvingunum í samræmi við Pelly-ákvæðið við lög til verndar fiskstofnum; ákvæði sem upphaflega var sett til að fylgja eftir ákvörðunum um veiðibann á laxastofnum í Norður-Atlantshafi. Til að gera langa sögu stutta var strax hætt við vísindaveiðar á 320 hrefnum, í stað 320 langreyða voru veidd 292 dýr á fjórum árum og 70 sandreyðar í stað 160 á þremur árum. Þessi samdráttur kom til eftir langa og stranga samningafundi milli Íslands og Bandaríkjanna.

Rangt mat á aðstæðum
Yfirlýsingar ráðamanna bera með sér að andstaða Bandaríkjanna við hvalveiðar hafi verið afgreidd sem þjónkun við hávaðasöm umhverfis og dýravelferðarsamtök til þess eins að kaupa sér græna ímynd. Þetta er mikill misskilningur enda voru Bandaríkin í forustuhlutverki í umhverfismálum á alþjóðavettvangi allt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Nefna má að árið 1985 knúðu Bandaríkin í gegn alþjóðlegan samning um verndun ósonlagsins og aftur árið 1989. Þar í  landi er jafnframt sterk hefð fyrir verndun tegunda í útrýmingarhættu. Síðast en ekki síst þá eru Bandaríkin vörsluaðili Alþjóðasamningsins um verndun og stjórnun hvalveiða (ICRW) frá 1946 og þau líta á það sem sína ábyrgð að hann haldi.

Í anda fyrri þorskastríða áréttuðu íslensk stjórnvöld að vera varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli væri háð að góðum samskiptum ríkjanna að öðru leyti. Áhrif slíkra yfirlýsinga kunna að hafa verið einhver um miðjan níunda áratuginn á meðan Kalda stríðið var enn í algleymingi en þegar komið var fram á tíunda áratug síðustu aldar hafði það fjarað út. Þá hentaði betur að heyja áróðursstríð við umhverfisverndarsamtök en troða illsakir við við stjórnvöld í Washington.

Engu til sparað
Ísland sagði sig úr IWC árið 1991 en sýnt þótti að veiðar undir merkjum NAMMCO (Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins) stæðust ekki þjóðarrétt þar eð aðildarríkin eru bara Ísland og Noregur, auk Færeyja og Grænlands en hvorugt þeirra er fullvalda.

Ekki dró því til tíðinda fyrr en í mars 1999 er Alþingi dró til baka fyrri þingsályktun frá 1983 um að andmæla ekki hvalveiðibanninu. Nú skyldi siglt til veiða á ný. Til að auðvelda verkið kvað ályktunin einnig á um að Alþingi fæli  „ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.”

Aldrei hefur fengist viðhlítandi svar við því hversu miklum fjármunum hefur verið varið í þetta kynningarátak en samkvæmt upplýsingum bandaríska dómsmálaráðuneytisins greiddi íslenska ríkið almannatengslafyrirtækinu Plexus Consulting Group 180 þúsund dollara á ári, auk kostnaðar, frá árinu 2000 og allt þar til Einar K. Guðfinnson lét af embætti í janúar 2009.

Brottför hersins greiðir fyrir hvalveiðum
Eftir að sendiherra Bandaríkjanna, James Gadsden, hafði tilkynnt Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, að herinn væri á förum, þá kynnti Ísland aðra fjögurra ára áætlun um vísindaveiðar. Nú skyldi veiða 100 langreyðar, 100 hrefnur og 50 sandreyðar á tveimur árum. Þegar til kom voru bara veiddar hrefnur. Veiðarnar hófust síðsumars 2003 og þær tóku fjögur ár.

Árið 2004 staðfesti viðskiptaráðherra, George W. Bush, forseta, Donald Evans, hvalveiðar Íslands hefðu veikt verndarmarkmið Hvalveiðiráðsins en Bush forseti lét duga að lýsa áhyggjum sínum vegna málsins. Í svari Árna M. Mathiesen, þá sjávarútvegsráðherra, kom fram að hvalveiðar hér við land myndu ekki aukast að umfangi en það ár voru veiddar 25 hrefnur.

Næsta hryna kom í október 2006. Viku eftir að samningar höfðu tekist milli Íslands og Bandaríkjanna um brottför varnarliðsins kynnti sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, um kvóta til veiða á 9 langreyðum og 30 hrefnum – nú alvöruveiðar. Carlos M. Gutierrez, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir að staðfesting forvera hans í embætti, Donlalds L. Evans, væri enn í fullu gildi. Ekkert var veitt af langreyði árin 2007 og 2008. Útflutningur gekk treglega og Ísland var í framboði til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna haustið 2008. Að standa í stappi við önnur ríki við slíkar aðstæður þótti ekki góð latína.

Annað var upp á teningnum eftir hrun. Í janúar 2009 gaf Einar K. Guðfinnsson út fimm ára kvóta til veiða á hrefnum og langreyðum. Núverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, endurnýjaði þann kvóta í nóvember s.l. en þó var sá munur á að leyfi til hrefnuveiða skal nú einungis veita þeim sem stunduðu veiðar árin 2006 – 2008. Það ákvæði reglugerðarinnar útilokar alla aðra en fyrirtæki sonar Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuvegar Alþingis.

Obama herðir aðgerðirnar
Í skýrslu utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar til Alþingis, sem hann kynnti þinginu þann 20 mars s.l. segir frá því að 31. janúar s.l. hafi innanríkisráðherra Bandaríkjanna sent forsetanum bréf til að staðfesta að Ísland grafi undan verndun hvalastofnum samkvæmt Pelly-ákvæðinu þar eð alþjóðleg viðskipti með hvalkjöt fari gegn samþykktum CITES en þau mál heyra undir innanríkisráðherran. Ennfremur segir í skýrslu Gunnars Braga, að „Þegar eru í gildi aðgerðir vegna hvalveiða Íslands sem gripið var til árið 2011 og varða fyrst og fremst diplómatísk samskipti ríkjanna.” Ekkert segir í skýrslunni um áhrif þeirra aðgerða á diplómatísk tengsl Íslands og Bandaríkjanna en í svari við spurningu Árna Þórs Sigurðssonar (VG) viðurkenndi utanríkisráðherra að þetta væri „áhyggjuefni”.

Ekki var búist neins konar efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Íslandi enda um tvö vinaríki að ræða. Á hinn bóginn hefur Obama forseti hert nokkuð þær aðgerðir sem kynntar voru í 6 liðum í september 2011. Nú er um 8 atriði að ræða og utanríkisráðherra, innanríkisráðherra og viðskiptaráðherra er gert að skila skýrslu innan 6 mánaða um árangur aðgerðanna. Hætt er við að John Kerry muni ekki þiggja ítrekað heimboð Gunnars Braga Sveinssonar á næstunni. Því verður að spurja hvort hvalveiðar gangi fyrir áherslum utanríkisráðherra á að efla tengslin við Washington. Hvaða hagsmunamat er þar að baki?

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, kjarninn.is.

Birt:
3. apríl 2014
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
kjarninn.is
Tilvitnun:
Árni Finnsson „30 ára þref um hvalveiðar“, Náttúran.is: 3. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/03/30-ara-thref-um-hvalveidar/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: