Fundarsalur Sesselíuhúss á Sólheimum var þéttsetin áhugamönnum um sameldi (e. aquaphonics) þriðjudaginn 25. mars sl. Þá fór fram ráðstefna um þessa eftirtektaverðu ræktunaraðferð.

Lokað vistkerfi

Það er erfitt að finna vettvang þar sem lífrænir bændur, ungt hugsjónafólk, akademískir fræðimenn og dellukarlar mætast í sameiginlegu hugðarefni. En þarna voru þau, sannarlegir fulltrúar betri framtíðar.

Fiskeldi, plöntur og örverur vinna saman í nærandi hringrás. Þetta kerfi er kallað sameldi. Það samanstendur af fiskabúrum og ræktunarbeðum og leiðslum þar á milli. „Úrgangur fiskanna umbreytist í næringu fyrir plöntur með aðstoð örvera, sem fæða fiskana,” útskýrir Mörður Ottesen, garðyrkjumaður og vistræktandi fyrir mér og segir að sameldi sé í raun lokað vistkerfi sem gefur umfram afurðir; svo sem fóður fyrir dýr, menn og plöntur.

Sameldi er útskýrt sem umhverfisvæn tækni sem sameinar fiskeldi og ræktun plantna í eitt framleiðsluform. Næringarríku affallsvatni frá fiskeldi er veitt í plönturæktun þar sem plönturnar nýta næringarefni og koldíoxíð til vaxtar. Þær skila síðan vatninu hreinu og súrefnisríku aftur í fiskeldið. Þannig nýtir sameldi öll hráefni á umhverfisvænan og hagkvæman hátt.

Þrjú dæmi

Það kemur í raun ekki á óvart að fólk kýs að nota orku sína í að fræðast og nýta sér þessa ræktunaraðferð. Víða um land eru frumkvöðlar að prófa sameldi á ýmsan hátt. Hér eru þrjú dæmi um hversu sniðugt og skilvirkt þetta er:

1. Svinna-verkfræði ehf. er eitt þriggja fyrirtækja í verkefninu EcoPonics sem styrkt er af EcoInnnovation sjóði Evrópusambandsins. Hin fyrirtækin eru Breen á Spáni og Institute of Global Food and Farming í Danmörku. Auk þess er Háskóli Íslands þátttakandi í verkefninu. Verkefnið hófst í júlí sl. og markmiðið er að koma upp sameldi í öllum löndum sem munu leggja grunninn að nýjum framleiðslueiningum í Evrópu. Hópurinn er afar samhentur, að sögn Ragnheiðar Þórarinsdóttur hjá Svinnu, og tekur hann m.a. þátt í evrópskum samstarfsnetum á þessu sviði sem spanna fleiri lönd og auk þess eru góð tengsl til sérfræðinga í Bandaríkjunum og Kanada. Áhuginn á sameldi fer vaxandi og til marks um það er rástefnan Aquaculture Europe 2014 sem haldin verður á Spáni í október nk. Þar verður sérstök málstofa þar sem niðurstöður verkefnisins verða m.a. kynntar.

2. Garðyrkjustöðin Kinn sem Hlynur Sigurbergsson og Luba Cvetkova reka í Hveragerði. Þau rækta matvæli í sameldi sem þau selja til matvöruverslana í Reykjavík. Þarna er hægt að sjá grænmetistegundir sem eru sjaldséðar á Íslandi, s.s. okrur (e. Lady fingers) sem margir unnendur asískrar matagerðar þekkja vel.

3. Heimagert kerfi Dags Brynjólfssonar í Hafnafirði. Dagur hefur byggt kerfi algerlega frá grunni á heimili sínu. Þar ræktar hann m.a. matjurtir sem nýtast sem næringarrík fæða í fjölskylduna. Hann hefur nú keypt sér gróðurhús í Reykholti sem hann hyggst nota undir stærra sameldi.

 Myndbirting vistræktar

Í sameldi felst ræktun í lokuðu kerfi. Kerfisbundið samval ólíkra lífvera sem myndar sjálfbært kerfi með hámarks uppskeru að leiðarljósi. Þegar kerfið gengur upp þarf lítið við það að bæta til að það geti gefið af sér uppskeru og fæðu fyrir allar lífverur sem að því koma.

Þessi dæmi sýna að sameldi er viðurkennd aðferð, sem vert er að fjárfesta í. Hún er vel mögulegt lifibrauð fólks, eitthvað sem við getum öll tekið upp á og haft gaman að.

Þetta er ljóslifandi dæmi um vistrækt.

Myndir: Guðrún Hulda Pálsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir.
1. Sameldi á Garðyrkjustöðinni Kinn.
2. Vatnstankar á Sólheimum.
3. Frá heimsókn Permaculture félags Íslands í Garðyrkjustöðina Kinn.

Birt:
28. mars 2014
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Sameinast í eldmóði um sameldi“, Náttúran.is: 28. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/28/sameinast-i-eldmodi-um-sameldi/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. apríl 2014

Skilaboð: