„Lífið er félagsskapur“ – Málstofa um Guðmund Pál Ólafsson
Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-17.00 verður haldið málþing um Guðmund Pál Ólafasson í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.
Guðmundur Páll Ólafsson (1941-2012) var einkar fjölhæfur maður og lagði gjörva hönd á margt. Hann er án efa þekkastur fyrir bókaflokk sinn um náttúru Íslands en síðasta bókin í þeim flokki, Vatnið í náttúru Íslands, kom út árið 2013, u.þ.b. ári eftir andlát hans. Í bókum Guðmundar Páls koma ekki aðeins saman hæfileikar hans sem rithöfundar, vísindamanns og ljósmyndara, heldur eru þær jafnframt sterkur vitnisburður um ævilanga baráttu hans fyrir verndun islenskra náttúru og í raun óaðskiljanlegar frá henni. Þær endurspegla mann sem brúaði bilið á milli lista og fræða, náttúru- og hugvísinda - og milli alls þessa og umhverfisaktífisma.
Málstofan verður tvöföld, þar verða fyrst flutt sex erindi um ólíkar hliðar á verkum og ævistarfi Guðmundar Páls en síðan verða pallborðsumræður með þátttöku allra frummælenda.
Fyrirlesarar og titlar erinda:
- Guðmundur Andri Thorsson: Sérðu það sem ég sé: Bókasmíðar Guðmundar Páls Ólafssonar
- Skúli Skúlason: Að hafa tilfinningu fyrir náttúrunni í vísindum
- Einar Falur Ingólfsson: Ljósmyndarinn Guðmundur Páll
- Andri Snær Magnason: Leitin að auðhumlu
- Unnur Birna Karlsdóttir: „Málsvari náttúrunnar“. Um náttúruverndarhugmyndir Guðmundar Páls Ólafssonar
- Þorvarður Árnason: Ástin á náttúrunni – tilraun til greiningar á vistspeki Guðmundar Páls
Útdrættir:
Guðmundur Andri Thorsson: Sérðu það sem ég sé: Bókasmíðar Guðmundar Páls Ólafssonar
Var Guðmundur Páll rithöfundur sem skrifar um náttúrufræði eða náttúrufræðingur sem skrifar bækur? Hvort tveggja og ótal margt fleira: ljósmyndari, teiknari, fræðari, en fyrst og fremst var hann bókagerðarmaður. Í bókunum mættust allar listir þessa fjölhæfa manns.
Sem höfundur hafði hann sinn tón – sín sterku einkenni – og rödd hans heyrðist vel og skar sig úr í íslenskri þjóðfélagsumræðu þegar hann tjáði sig í blaðagreinum, afdráttarlaust og af þunga, svo að fólk hrökk eiginlega við þegar það las, því að slík siðferðileg alvara hefur ekki átt beinlínis upp á pallborðið á seinni árum. Hann náði hins vegar eyrum fólks og vakti það til vitundar um margvíslega vá sem steðjar að náttúru okkar.
En í verkum sínum er Guðmundur Páll ekki bara hrópandinn í eyðimörkinni. Þar birtist okkur líka hinn ákafi og gamansami fræðari, hinn innilegi ljóðaunnandi, sagnamaðurinn skemmtilegi, gruflarinn sem pælir í hinstu rökum tilverunnar en umfram allt – náttúruskoðarinn sem tekur lesanda sér við hönd og spyr: Sérðu það sem ég sé?
Skúli Skúlason: Að hafa tilfinningu fyrir náttúrunni í vísindum
Náttúran sem við mennirnir erum hluti af er margbrotin og flókin og skilningur okkar á henni er mjög takmarkaður. En frammi fyrir hinu óþekkta kviknar forvitnin og þráin eftir því að vita meira og verða þannig virkur þátttakandi í undrum náttúrunnar. Þegar svona samband manns við náttúruna fær tækifæri til að þroskast felur það í sér fegurð og ástríðu og er best líst sem vináttu. Í vísindum leiðir þetta vináttusamband til þess að við sjáum betur þau verðmæti sem náttúran felur í sér; og við eigum auðveldara með að vanda okkur og miðla þeirri þekkingu sem við öflum með þessum hætti til gleði og gagns fyrir hinn mannlega veruleika. Rannsóknaraðferð náttúrufræðingsins Guðmundar Páls Ólafssonar fellur mjög vel að þessari hugsun. Hann þroskaði sterka tilfinningu fyrir umhverfi sínu og var sannur vinur náttúrunnar sem hann þráði að skilja og kenna okkur að umgangast á réttan hátt.
Einar Falur Ingólfsson: Ljósmyndarinn Guðmundur Páll
Ljósmyndun var ein þeirra greina sem Guðmundur Páll lagði stund á – fagið lærði hann í Svíþjóð. GPÓ var ástríðufullur ljósmyndari, og áhugasamur um vandaða ljósmyndun, en fyrst og fremst beitti hann þessu skráningartæki sem myndavélin er á áhrifaríkan hátt við miðlun sína og fræðslu um heiminn. Hann var aðallega náttúruljósmyndari; þolinmóður, athugull og næmur, eins og þeir þurfa að vera sem leggja slíka stund á slíkt. Ég velti fyrir mér þeim heimi sem hann skildi eftir sig í ljósmyndum.
Andri Snær Magnason: Leitin að auðhumlu
Þeir sem kynna sér umhverfismál komast ekki hjá því að sjá sláandi mun á gögnum og varnaðar-orðum náttúruvísindamanna og hins vegar ákvörðunum og framtíðarsýn þeirra sem hafa lært aðrar og ,,harðari" greinar. Þegar náttúruvísindamenn sem starfa hjá virtustu háskólum veraldar sjá fjölmörg varúðarmerki, fordæmalausan dauða dýrategunda, bráðnun jökla og hækkandi hitastig, þverrandi auðlindir og versnandi vatnsbúskap má sjá þveröfuga framtíðarsýn hjá þeim sem hafa lært í þessum sömu háskólum og stýra fjármagnsflæði heimsins, framkvæmdum og framleiðslu. Þar eru settar fram spár um þrefalda, álframleiðslu, stálframleiðslu, bílaframleiðslu, plastframleiðslu, gosdrykkjaneyslu, hagvöxt, neyslu eða orkuframleiðslu. Við sjáum merkin hér víða í hönnun á innviðum höfuðborgarinnar, ákvörðunum í orkuvinnslu og í stærri og alvarlegri mynd til dæmis í Kína - þar sem mistök Vesturlanda virðast ekki aðeins endurtekin, heldur fjölfölduð á áður óþekktum skala. Í heimi þar sem sérhver einstaklingur helgar sig sífellt þrengri sviðum vex þörfin fyrir fólk sem getur sett hlutina í samhengi. Þar var Guðmundur Páll Ólafsson óhræddur við að setja náttúruna í samhengi við fagurfræði, siðfræði, listir og sögu. Guðmundur Páll var einnig óhræddur við að sækja sér myndhverfingar í goðafræði. Í Vatninu í Náttúru Íslands kemur fram ný hugmynd um Auðhumlu, hina goðsögulegu kýr goðafræðinnar. Í heimildarskrá er vitnað í Andra Snæ Magnason varðandi þá hugmynd og mun hann útskýra og segja frá tilurð hennar og hvernig hann og Guðmundur Páll römbuðu samtímis á þessa heilögu kýr.
Unnur Birna Karlsdóttir: „Málsvari náttúrunnar“. Um náttúruverndarhugmyndir Guðmundar Páls Ólafssonar
Í fyrirlestrinum verður fjallað um baráttu Guðmundar Páls Ólafssonar fyrir verndun íslenskrar náttúru eins og hún birtist í verkum hans, og þá einkum í riti hans, Hálendi Íslands og Vatnið. Dregnar verða fram helstu áherslur í þeirri hugmyndafræði sem þar birtist og hvernig þær tengjast vestrænni náttúrusýn í víðara samhengi. Einnig verður skoðað í hverju sérstaða Guðmundar Páls í sögu náttúruverndar á Íslandi felst.
Þorvarður Árnason: Ástin á náttúrunni – tilraun til greiningar á vistspeki Guðmundar Páls
Sterk viðhorf til náttúrunnar, sérstaklega þó varðandi verndun hennar, eiga sér oftast djúpar rætur í siðferðiskennd og verðmætamati einstaklinga. Deilur um náttúruvernd orsakast því iðulega af árekstrum á milli ólíkra grunnviðhorfa um hvað er verðmætt, hvað er merkingarbært og hvað er þess virði að berjast fyrir. Slík grunnviðhorf eru mönnum sjálfum jafnvel að mestu hulin og koma því sem slík sjaldan til umræðu; umræðan er þess í stað nánast öll á yfirborðinu og málin af þeim sökum sjaldan til lykta leidd. Fáir þátttakendur í slíkum deilum ná að þroska með sér djúpa, heildstæða sýn á eigin viðhorf og annarra, því nýr slagur tekur ávallt við af öðrum. Í erindinu verður gerð tilraun til að greina þau viðhorf til náttúrunnar sem fram koma í verkum Guðmundar Páls út frá kenningaheimi náttúrusiðfræðinnar, reynt að teikna upp útlínur hugmyndafræðinnar (eða vistspekinnar) sem þar birtist og rætt um gildi hennar fyrir yfirstandandi náttúruverndarumræðu á Íslandi.
Ljósmynd: Guðmundur Páll Ólafsson á Náttúruverndarþingi 2012 er honum var veitt viðurkenningu náttúruverndarfélaga Náttúrverndarann“ fyrir störf sín. Ljósmyndari: Guðrún A. Tryggvadóttir. Sjá ávarp Guðmundar Páls við þetta tækifæri hér.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „„Lífið er félagsskapur“ – Málstofa um Guðmund Pál Ólafsson“, Náttúran.is: 13. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/13/lifid-er-felagsskapur-malstofa-um-gudmund-pal-olaf/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014