Málþing og uppsetning nýrra hraðrafhleðslustöðva
Í dag, þriðjudaginn 11. mars, mun Orka náttúrunnar taka í notkun fyrstu hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hér á landi. Hún verður við höfuðstöðvar fyrirtækisins að Bæjarhálsi 1. Stöðin er sú fyrsta af tíu sem komið verður upp á næstu mánuðum um sunnan- og vestanvert landið. Átak Orku náttúrunnar, sem er í samstarfi við B&L og Nissan í Evrópu, er mikilvægt skref í rafbílavæðingunni þar sem innviðir hennar eru styrktir.
Fyrstu hleðsluna fær Kristbjörg Magnúsdóttir ljósmóðir. Hún hefur farið flestra sinna ferða undanfarna mánuði á rafbíl og hefur ekið um 12 þúsund kílómetra meðal annars til að sinna heimafæðingum.
Í tengslum við þennan viðburð efnir Orka náttúrunnar til málþingsins Í samband við náttúruna. Það verður haldið að Bæjarhálsi 1 og stendur frá kl. 13:00 til 15:30, þegar hraðhleðslustöðin verður formlega tekin í notkun.
Lykilerindi flytur Norðmaðurinn Ole Henrik Hannisdahl. Hann er verkefnisstjóri Grønn Bil en markmið þess verkefnis er að árið 2020 verði komnir 200 þúsund rafbílar á norskar götur. Nú eru þeir um 25.000 og standa Norðmenn öllum öðrum þjóðum framar á þessu sviði. Ole Henrik mun segja frá reynslu Norðmanna af hraðhleðslustöðvum í erindinu Fast chargers: Who needs them, and for what?
Á málþinginu mun Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, gera grein fyrir tækifærum sem í rafbílavæðingunni felast og kynna framlag fyrirtækisins til rafbílavæðingar. Þeir, ásamt Jóni Birni Skúlasyni, framkvæmdastjóra Íslenskrar nýorku, munu sitja í pallborði eftir kynningar. Fundarstjóri verður Hildigunnur Thorsteinsson.
Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig á málþingið. Smelltu hér til að skrá þig.
Hvar verða stöðvarnar?
Við staðsetningu hraðhleðslustöðvanna var þetta lagt til grundvallar:
- Að þær myndu auka vegalengdina sem hægt er að ferðast á rafbílum frá þeim landshluta þar sem flestir rafbílar eru, þ.e. höfuðborgarsvæðinu.
- Að þær lægju vel við dreifikerfi rafmagns, en þær þurfa meira afl en heimilisrafmagnið.
- Að bíleigandinn hefði eitthvað við að vera þann hálftíma sem tekur að hlaða.
Stöðvarnar verða því vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og í allt að 80 kílómetra fjarlægð frá miðborginni í allar áttir.
Jákvæð þróun
Raforkuframleiðsla á hvern íbúa er hvergi meiri en hér á Íslandi og raforkan ódýrari en gengur og gerist í grannríkjunum. Rafbílum hefur fjölgað talsvert á síðustu árum. Nýjar gerðir, sem betur höfða til almennings, hafa komið á markað og stuðningur hins opinbera í formi lækkaðra eða niðurfelldra gjalda hafa ýtt undir þessa þróun. Það er því margt sem styður við rafvæðingu samgangna á Íslandi.
Eitt hlutverka Orku náttúrunnar er stuðla að aukinni notkun grænnar, innlendrar orku. Fjölgun rafbíla er stórt tækifæri í þeim efnum og þar með viðskiptatækifæri fyrir ON til langrar framtíðar.
ChAdeMO staðallinn
Hraðhleðslustöðvarnar, sem Orka náttúrunnar setur upp, eru af gerðinni DBT. Þær eru samkvæmt svonefndum CHAdeMO staðli og verða aðgengilegar öllum rafbílum sem uppfylla þann staðal. Þær hafa verið settar upp í löndum eins og Noregi, Frakklandi, Bretlandi og víðar.
CHAdeMO-staðall hefur náð afgerandi forystu í þróun hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla. Hleðslustaurar sem uppfylla staðalinn eru með yfirgnæfandi hlutdeild á rafbílamarkaði og er CHAdeMO nú þegar notaður af öllum framleiðendum japanskra og franskra rafbíla. Enn er þó ekki hægt að fullyrða að hann verði hinn eini samræmdi staðall.
Nissan í Evrópu og B&L leggja til stöðvarnar og Orka náttúrunnar tók að sér að setja þær upp og reka. Reynsla annarra sýnir að flestir hlaða rafbílana heima hjá sér eða á vinnustað. Hraðhleðslustöðvar eru viðbót sem eykur notagildi rafbíla þar sem hægt verður að hlaða bílinn á völdum stöðum á skemmri tíma en áður.
Ljósmynd: Fyrsta hraðleðslustöðin, við höfuðstöðvar OR Bæjarhálsi.
Birt:
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Málþing og uppsetning nýrra hraðrafhleðslustöðva“, Náttúran.is: 11. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/11/malthing-og-uppsetning-nyrra-hradrafhledslustodva/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.