Bergtegundir og steindir
Jarðskorpan er samsett úr bergtegundum. Algengasta bergtegundin er storkuberg sem verður til við storknun bergkviku misdjúpt í jörðu.
Djúpberg er storkuberg sem storknar djúpt í jörðu.
Gangberg er storkuberg sem storknar í sprungum og göngum.
Gosberg er storkuberg sem storknar á yfirborði jarðar.
Storkuberg er frumberg jarðar sem aðrar bergtegundir verða til úr. Molaberg (setberg) er til dæmis bergmylsna úr verðruðu storkubergi sem safnast hefur saman og harðnað í fast setlag. Um 90% af föstu bergi á Íslandi er storkuberg.
Bergtegund er oftast samsett úr mismunandi steindum (steintegundum). Steindir eru ólífræn kristölluð efni eða efnasambönd þar sem frumefnin raðast í kristalgrind.
Stærð, gerð og lögun steinda ræðst að mestu af hitastigi, efnasamsetningu bergs og holrými í berginu. Steindir (kristalar) skiptast í frumsteindir og síðsteindir.
Frumsteindir verða til við hraða storknun bergkviku og á það jafnan við
um gosberg. Margar steindir vaxa þá oft samtímis og kristalarnir verða yfirleitt smávaxnir.
Síðsteindir verða til síðar við ummyndun bergs og frumsteinda vegna hita og þrýstings eða vegna útfellingu efna úr upplausn. Síðsteindir sem vaxa óaðþrengdar og við hæga kólnun bergs verða oft að stórum og fagursköpuðum holufyllingum (kristölum). Nokkrar frumsteindir finnast einnig sem stórvaxnir kristalar.
FRUMSTEINDIR Í STORKUBERGI
Frumsteindir í storkubergi eru einkum síliköt (innihalda flestar kísilsýru, SiO2).
Á Íslandi er eftirtaldar frumsteindir algengar í storkubergi:
Plagíóklas Blanda af natríumfeldspati (NaAlSi3O8) og kalsíumfeldspati
(CaAl2Si2O8). Glært eða hvítt. Harka: 6-6,5
Ortóklas Kalífeldspat (KAlSi3O8).
Glært, gráhvítt eða ljósrauðleitt. Harka: 6
Kvars Kísilsýra (SiO2). Glært eða gráleitt. Harka: 7
Pýroxen Fjölbreyttur flokkur af magnesíum-járn-kalsíum-ál-silikötum.
Yfirleitt dökkt. Harka: 5-6.
Ólívín Magnesíum-járn-sílikat ((Mg,Fe)2SiO4)
Glergljáandi og gulgrænt. Harka: 6-7
Magnetít Seguljárnsteinn (járnoxíð, Fe3O4). Brúnn, svartur. Harka: 5,5.
Feldspat er samheiti yfir plagíóklas og ortóklas. Meira en helmingur jarðskorpunnar er myndaður úr feldspati.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofa Kópavogs „Bergtegundir og steindir“, Náttúran.is: 23. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2014/02/23/bergtegundir-og-steindir/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. febrúar 2014