Stefán Gíslason fjallaði um lífræna vottun og stöðu lífrænnar framleiðslu í pistli sínum í Sjónmáli þ. 30.01.2014 sem lesa má hér að neðan.

Á síðustu vikum hefur hættuleg efni í neytendavörum oft borið á góma hér í Sjónmáli, enda af nógu að taka í þeim efnum. Þannig hefur sitthvað verið rætt um varnarefni í víni og í öðrum matvælum, um sýklalyfjaleifar í verksmiðjuframleiddu kjöti, um hormónaraskandi efni í barnafötum, ofnæmisvalda í snyrtivörum og þar fram eftir götunum. Leið neytenda í gegnum allan þennan frumskóg af efnum er vissulega vandrötuð, en sem betur fer geta ýmis hjálpartæki nýst á þeirri leið. Eitt þessara tækja er lífræn vottun, hvort sem málið snýst um vín, kjöt, barnaföt eða snyrtivörur.

Lífræn vottun felur í sér óháða staðfestingu á því að varan sem um ræðir eigi uppruna sinn í lífrænum landbúnaði. Þetta þýðir meðal annars að gengið hafi verið vel um landið, dýrin hafi fengið þokkalega meðhöndlun, sæmilegt pláss og útivist, að ekkert erfðabreytt efni hafi komið við sögu í ferlinu, að ekki hafi verið notaður tilbúinn áburður eða varnarefni við ræktunina, að ekki hafi verið notuð hættuleg efni við úrvinnslu afurða, og að rekjanleiki sé ávallt til staðar. Þarna er notkun hættulegra efna sem sagt útilokuð, þó að vísu geti náttúruleg ofnæmisvaldandi efni verið til staðar eftir sem áður, enda nóg af þeim bæði í plöntu- og dýraríkinu.

Lífræn vottun er staðfest með þar til gerðum merkjum. Þessi merki eru fjöldamörg og mismunandi útlits, en þau þýða öll nokkurn veginn það sama, enda byggja þau öll á sömu Evrópureglugerðunum, þ.e.a.s. þegar um er að ræða lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins. Lífræn vottunarmerki utan Evrópu byggja líka á svipuðum grunnreglum, enda sameinast aðilar í þessum geira á heimsvísu undir merkjum alþjóðasamtakanna IFOAM, þar sem línurnar eru lagðar.

Væntanlega kannast meirihluti þjóðarinnar við merki Vottunarstofunnar Túns, en Tún er eini aðilinn sem býður upp á vottun af þessu tagi á Íslandi. Af öðrum vottunarmerkjum fyrir lífræna framleiðslu, sem oft má sjá í íslenskum búðarhillum má nefna danska Ø-merkið, Debio frá Noregi, KRAV frá Svíþjóð, Soil Association frá Bretlandi og AB frá Frakklandi. En merkin eru miklu fleiri eins og áður sagði.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins má enginn markaðssetja vöru sem lífræna, nema hún sé vottuð af þar til bærum aðila sem hefur til þess leyfi frá stjórnvöldum í viðkomandi landi. Nafn fyrirtækis eða vöruheiti má heldur ekki gefa lífrænan uppruna til kynna, nema varan sé vottuð. Fáir taka áhættuna á því að svindla á þessum reglum, enda má búast við viðurlögum ef upp kemst. Einstaka sinnum hef ég þó rekist á dæmi þess að framleiðendur leyfi sér að halda því fram að varan sé lífræn, þó að vottunina vanti. Nýjasta dæmið um slíkt sá ég meira að segja í síðustu viku. Ef neytendur vilja vera vissir um að ekki sé verið að plata þá, ættu þeir ekki að taka orðið „lífrænt“ trúanlegt eitt og sér, fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að vottunarmerki sé til staðar á umbúðunum.

Alla jafna má gera ráð fyrir að minni uppskera fáist af hverjum hektara í lífrænni ræktun en í þaulræktun þar sem áburði og eiturefnum er beitt af vísindalegri nákvæmni til að hámarka afköstin. Þetta er vissulega ákveðinn galli, því að þetta þýðir að lífræna framleiðslan þarf stærra landsvæði til að skila jafnmikilli uppskeru. En þarna er reyndar ekki allt sem sýnist. Leikarnir geta jafnast þegar til lengri tíma er litið, því að tegundafjölbreytni í lífrænni ræktun er alla jafna meiri, þol gegn áföllum meira og endingartími jarðvegsins lengri.

Margt hefur verið rætt og ritað um það hvort lífrænt vottuð matvæli séu hollari en önnur. Þarna sem víðar er ekkert einhlítt svar til, en rannsóknir benda þó til að lífræn matvæli innihaldi oft meira af hollum fitusýrum og andoxunarefnum, auk þess sem þurrefnisinnihald þeirra er í mörgum tilvikum hærra, sem aftur þýðir að neytandinn fær í raun meiri mat úr hverju kílói af mat. Og varnarefnaleifarnar og sýklalyfin eru alla vega á bak og burt.

Stundum heyri ég því haldið fram að lífræn ræktun byggi á einhvers konar trúarbrögðum og sé helst stunduð af aflóga hippum af 68-kynslóðinni. Það er vissulega rétt að mörg blómabörn voru mjög áhugasöm um lífræna ræktun. En ef maður horfir aðeins út fyrir garðshliðið kemur allt önnur og stærri mynd í ljós. Lífræn framleiðsla er nefnilega fyrst og fremst atvinnugrein sem vex hraðar en flestar aðrar atvinnugreinar í samtímanum. Í Evrópu snýst málið t.d. um 8% árlegan vöxt á meðan hagvöxtur er ekki nema 1-2%. Sjálfsagt byrja margir í þessari grein af hugsjón, en málið snýst miklu frekar um arðbær viðskipti í sátt við náttúru og samfélag. Þetta endurspeglast til dæmis mjög greinilega í skýrslu Alþingis um eflingu græns hagkerfis á Íslandi, sem út kom fyrir tveimur árum. Þar er á það bent að eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum hafi aukist mjög hratt á síðustu árum, bæði hérlendis og erlendis, langt umfram almenna eftirspurn í hagkerfinu. Í skýrslunni segir orðrétt að þessi „aukna eftirspurn, bæði meðal íslenskra neytenda og ferðamanna sem sækja landið heim, [hafi] í för með sér að ný störf skap[i]st við lífræna framleiðslu. Hvort þessi störf verði til innanlands eða utan velti meðal annars á stefnumótun stjórnvalda“. Í skýrslunni kemur líka fram að á sama tíma og 5-15% af öllu landbúnaðarlandi í Svíþjóð, Austurríki, Sviss, Finnlandi, Ítalíu, Danmörk, Grikklandi og Tékklandi séu komin með lífræna vottun, sé þetta hlutfall aðeins um 1,2% á Íslandi.

Í framhaldi af þessu öllu saman fól Alþingi forsætisráðherra að stýra mótun aðgerðaáætlunar um grænt hagkerfi, þar sem meðal annars var að finna þrjár tillögur sem miðuðu beinlínis að því að auka hlut lífrænnar framleiðslu í íslenska hagkerfinu. Þingsályktun um þetta var samþykkt 20. mars 2012 af öllum þeim 43 þingmönnum sem þá voru staddir í þingsal, hvar í flokki sem þeir stóðu.

Á þeim tíma sem liðinn er frá samþykkt þingsályktunarinnar um græna hagkerfið hefur staða lífrænnar framleiðslu á Íslandi reyndar ekki styrkst að neinu ráði, þó að ályktun Alþingis sé enn í fullu gildi. Hins vegar hefur þróunin í löndunum í kringum okkur verið ör, og lausleg könnun á úrvali af lífrænt vottuðum varningi í búðarhillum bendir til þess að innflutningur af slíkum vörum vaxi jafnt og þétt. Ágætt dæmi um þetta eru lífrænt vottaðir kjúklingar frá Danmörku, sem fengist hafa í íslenskum verslunum síðasta árið. Engir slíkir kjúklingar eru ræktaðir á Íslandi, jafnvel þótt íslenskir neytendur séu greinilega tilbúnir til að greiða miklu hærra verð fyrir þá heldur en óvottaða fugla úr íslenskum kjúklingabúum. Og Danir flytja ekki bara lífrænar vörur til Íslands. Í febrúar leggur fyrsta tankskipið upp þaðan í siglingu til Kína með geymsluþolna lífræna mjólk sem þarlendir neytendur hyggast kaupa dýrum dómum. Og þeir eru margir.

Mér finnst við hæfi að enda þennan pistil á tilvitnun í yfirlit Evrópusambandsins frá því skömmu fyrir jól um stöðu lífrænnar framleiðslu í álfunni, en þar segir meðal annars: „Lífrænar vörur eru ekki lengur jaðarvörur. Þetta er orðinn markaður sem veltir um 20 milljörðum evra á ári og hefur vaxið um 8% árlega frá 2008, þrátt fyrir efnahagsþrengingar“. Og án þess að það standi nú beinlínis í þessu skjali Evrópusambandsins, þá hlýtur maður að draga þá ályktun af þróun mála, að þetta snúist alls ekki um túarbrögð nokkurra sérvitringa, heldur einfaldlega um viðskiptatækifæri og atvinnuuppbyggingu í sátt við umhverfi og samfélag, þar sem neytendum er í leiðinni hlíft við því að umgangast hættuleg efni í matnum sem þeir borða, snyrtivörunum sem þeir maka á sig og fötunum sem þeir klæðast.

Birt:
2. febrúar 2014
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Hvað felst í lífrænni vottun?“, Náttúran.is: 2. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/02/02/hvad-felst-i-lifraenni-vottun/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: