Mývatn á rauðum lista
Umhverfisstofnun tilkynnti í dag að Mývatn væri komið á rauðan lista stofnunarinnar, m.a. vegna fyrirhugaðrar Bjarnarflagsvirkjunar Landsvirkjunar við vatnið. Svæði á rauðum lista eru t.d. talin í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu.
Í yfirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar segir um ógnir sem steðja að Mývatni: ,,Áform eru um að virkja í Bjarnarflagi og óvissa ríkir um áhrif virkjanaframkvæmda á vistkerfi Mývatns." Einstakt lífríki Mývatns skapar því sérstöðu á heimsvísu. Þess vegna segir í verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá að það sé skylda núlifandi kynslóðar að varðveita sérstöðu svæðisins og þar með að tryggja komandi kynslóðum sama aðgengi og svipaða upplifun og við getum notið nú í dag.
Landvernd hefur farið formlega fram á það við stjórn Landsvirkjunar að fyrirtækið stöðvi nú þegar framkvæmdir við fyrirhugaða virkjun og vinni nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar, en núgildandi mat er að verða tíu ára gamalt. Þú getur tekið undir þessa kröfu með því að skrá nafn þitt á heimasíðu Landverndar.
Ljósmynd: Við Mývatn, Sigmundur Einarsson,
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Mývatn á rauðum lista“, Náttúran.is: 11. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/11/myvatn-raudum-lista/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.