Almenningar er þjóðlenda og því ætti hver sem er að geta kært úrskurð ítölunefndar. Það ættu sem flestir að gera og með þeim hætti heiðra minningu Herdísar Þorvaldsdóttur og hennar baráttu. Verði þessum úrskurði ítölunefndar ekki snúið erum við komin áratugi aftur í tímann enda eru ráðleggingar vísindamanna að engu höfð. Hann stenst engan veginn varúðarregluna sem nýlega var leidd í lög hér á landi með samþykkt frumvarps til laga um náttúruvernd.

Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona og baráttukona fyrir náttúruvernd verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju í dag kl. 15:00. Hún stofnaði og var formaður náttúruverndarsamtakanna Líf og land sem stofnuð voru árið 1980 og beittu sér einkum fyrir gróðurvernd og gegn lausagöngu búfjár. Eitt síðasta verk hennar var gerð heilimildarmyndarinnar Fjallkonan hrópar á vægð sem hún fjármagnaði með sölu dýrmæts málverks sem hún átti.

Til marks um að Herdís barðist ekki til einskis eru drög að ályktun sem lögð var fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í febrúar s.l.:

Drög að ályktun um umhverfismál

Eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga á sviði náttúruverndar er að snúa við þeirri gróður og jarðvegseyðingu sem hófst við landnám. Til þess þarf uppgræðslu örfoka lands, nýrækt skóga og beitarstjórnun. Í okkar valdi er að stýra beit á landinu til þess að náttúruleg gróðurmyndun geti átt sér stað. Breyta þarf lögum á þann hátt að vörsluskylda búfjár sé meginregla en lausaganga undantekning. Búfjáreigendur ættu í öllum tilfellum að bera ábyrgð á sínu búfé á því landi sem þeir nýta. Eignarréttur landeigenda sem kæra sig ekki um að gróðurlendi þeirra séu beitt af búsmala annarra skal virtur til jafns við annan eignarrétt.

Afgreiðsla þessarar ályktunar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins benti ekki til að þessi náttúruverndarhugsun risti djúpt meðal landsfundarfulltrúa og fréttnæm þóttu háðsyrði eins fulltrúans sem spurði hvort þetta ætti að vera eitthvað grin. Engu að síður málefnið er til umræðu. Jafnvel í Sjálfstæðisflokknum sem lengst af hefur látið hagsmuni bænda ganga fyrir.

Að hagsmunir bænda gangi enn fyrir er nýleg niðurstaða ítölunefndar  en meirihluti hennar ákvað að leyfa sauðfjárbeit á afréttingum Almenningi sem Landgræðslan, Skógrækt ríkisins og vísindamenn við Landbúnaðarháskóla Íslands telja óbeitarhæft; afréttur sem sömu stofnanir telja býnt að njóti friðunar um langa framtíð. Hvernig má það vera að bændur geti í krafti atkvæða eigin hagsmunagæslumanna komist upp með að beita afrétti - örfoka land - sem vísindamenn telja að þoli alls ekki beit á sama tíma og sjálfsagt þykir að banna og/eða takmarka veiðar á þeim fiskstofnum sem ofveiddir eru?

Ekkert um ofbeit eða gróðureyðingu í samstarfsyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr við völd og ef að líkum lætur verður ekkert slíkt að finna í stefnuyfirlýsingu næstu ríkisstjórnar heldur.

Unnt er að kæra niðurstöðu ítölunefndar til atvinnu- og nýsköpunarráðherra, sem verður að teljast ansi forn stjórnsýsla þar eð öll önnur umhverfismál fara nú fyrir Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála. Hvað sem því líður, Náttúruverndarsamtök Íslands hyggjast kæra niðurstöðu ítölunefndar og það mun Landgræðsla ríkisins einnig gera.

Almenningar er þjóðlenda og því ætti hver sem er að geta kært úrskurð ítölunefndar. Það ættu sem flestir að gera og með þeim hætti heiðra minningu Herdísar Þorvaldsdóttur og hennar baráttu. Verði þessum úrskurði ítölunefndar ekki snúið erum við komin áratugi aftur í tímann enda eru ráðleggingar vísindamanna að engu höfð. Hann stenst engan veginn varúðarregluna sem nýlega var leidd í lög hér á landi með samþykkt frumvarps til laga um náttúruvernd.

Birt:
9. apríl 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Heiðrum baráttukonu!“, Náttúran.is: 9. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/09/heidrum-barattukonu/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: