Fyrir tveimur árum staðfesti mennta- og menningarmálaráðneytið nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn og framhaldsskóla. Á heimasíðu ráðuneytisins segir að í aðalnámskrám,„birtist ný menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi.

Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.“

Í framhaldi af þessari stefnumörkun hóf ráðuneytið og Námsgagnastofnun að gefa út lítil þemahefti um hvern af þessum grunnþáttum. Þau eru bæði gefin út á netinu og prentuð. Heftin eru fyrst og fremst ætluð kennurum og öðru skólafólki til að skerpa þekkingu sína á viðkomandi grunnþætti aðalnámskrár og fá hugmyndir um innleiðingu og kennslu á viðkomandi sviði.

Heftið um sjálfbærni er fjórða heftið af þessum sex sem nú kemur út og er enn aðeins á netinu en kemur út prentað á næstu dögum. Það er skrifað af Sigrúnu Helgadóttur, kennara og umhverfisfræðingi. Þótt það sé fyrst og fremst ætlað skólafólki nýtist það hverjum sem er sem langar til að kynna sér hugmyndafræði menntunar til sjálfbærni.

Mynd: Bókarkápa Sjálfbærniritsins, skoða bókina sem flettibók á vef Námsgagnastofnunar.

Birt:
6. apríl 2013
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Rit um grunnþætti menntunar - Sjálfbærni“, Náttúran.is: 6. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/06/rit-um-grunnthaetti-menntunar-sjalfbaerni/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: