Orku og umhverfismál tengja Ísland við umheiminn í æ ríkara mæli. Þessi tengsl komu glögglega í ljós í deilunni um Kárahnjúkavirkjun og sýndu að Landsvirkjun var með öllu óviðbúin þeirri gagnrýni sem dundi á fyrirtækinu og íslenskum stjórnvöldum vegna virkjunaráforma á Austurlandi. Samningaviðræður við Norsk Hydro kölluðu – vitaskuld – á aukinn áhuga skandinavískra fjölmiðla og svar Landsvirkjunar var að ráðast á þau samtök og einstaklinga sem beittu sér fyrir náttúruvernd. Landsvirkjun nuðaði einnig í Norsk Hydro um að tala nú alls ekki við íslensk náttúruverndarsamtök fyrr en eftir samningar hefðu verið undirritaðir.

Öllum má ljóst vera að Landsvirkjun verður að stíga mjög varlega til jarðar til að geta talist trúverðugt fyrirtæki þegar kemur að sölu á ‘endurnýjanlegri orku’ – ekki síst ef selja á orkuna um sæstreng til Bretlands. Þar eru nefnilega fleiri en umhverfisverndarsamtök sem láta sig málið varða enda ekki allir þar í landi sem hafa hag af að orka verði keypt frá Íslandi.

Sala á ‘grænni orku’ til Bretlandseyja mun auka kröfur um að íslensk stjórnvöld og fyrirtæki reki ábyrga stefnu í umhverfismálum. Bretar eru nú um 7% þeirra ferðamanna sem hingað koma og breskum ferðamönnum fjölgar hlutfallslega mest, eða um 21% á síðasta ári. Ísland má tæpast við því að hingað komi breskir blaðamenn til að skrifa greinarflokk um ástand og verndun þeirra náttúrusvæða sem erlendir ferðamenn sækjast eftir að sjá og skoða. Þetta á ekki síst við um Mývatn.

Fari Landsvirkjun ekki fram af ítrustu varúð gæti niðurstaða breskra fjölmiðla hæglega orðið sú að Ísland skeyti litlu um verndun einstæðrar náttúru heldur vilji græða sem mest á orkusölu og ferðaþjónustu á sem stystum tíma. Mývatn er heimsfræg náttúruperla og verði lífríki þess ógnað með óábyrgum virkjanaframkvæmdum mun það vekja athygli víðar en hér á landi.

Þessa dagana veður Landsvirkjun uppi í Mývatnssveit eins og ekkert hafi breyst. Framkvæmdir við byggingu Bjarnarflagsvirkjunar eru hafnar án eiginlegs framkvæmdaleyfis þrátt fyrir að í umsókn Landsvirkjunar til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um leyfi „… til að undirbúa framkvæmdir …” segi að „… Gera þarf umfangsmikla landmótun á fyrirhuguðu stöðvarhússvæði. Vinna þarf land niður um nokkra metra, auk þess sem grafið verður fyrir væntanlegu stöðvarhúsi.”

Á vefsíðu Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn má lesa, að;

Oft hefur verið rætt um hugsanlega kólnun svæðisins vegna vinnslunnar. Kólni svæðið mun það leiða af sér minna kísilstreymi til Mývatns, en kísilmagn í vatni fer eftir vatnshitanum. Núna berast með jarðhitavatni um 10 tonn af kísli á dag til Mývatns og er hann undirstaða undir hinni auðugu kísilþörungaflóru þar.

Ennfremur kemur fram á vefsíðunni að fræðimenn séu ekki á einu máli um hvort svæðið muni kólna við orkuvinnslu við Bjarnarflag. Ef um álitamál er að ræða verður að spurja af hverju Landsvirkjun liggur nú svo mikið á framkvæmdir eru nú hafnar án þess að virkjunarleyfi hafi verið veitt og án þess að stjórn Landsvirkjunar hafi samþykkt að ráðast í byggingu Bjarnarflagsvirkjunar. Er það ekki stefna ríkisstjórnarinnar að náttúran skuli njóta vafans?

Á hinn bóginn hafnar forstjóri Landsvirkjuar, Hörður Arnarson, kröfum um að umhverfisáhrif Bjarnarflagsvirkunar verði metin að nýju. En hvernig hyggst Landsvirkjun – ef ekki með umhverfismati – tryggja að Bjarnarflagsvirkjun valdi ekki óbætanlegum skaða á lífríki Mývatns? Svar Harðar virðist vera að nú eigi að vanda sig auk þess áhrifin verði vöktuð en vöktun fer fram eftir að virkjunin hefur verið byggð og nú hefur vöktun leitt í ljós að Lagarfljótt sé dautt. F.v. framsóknarráðherrar segja að það sé bara í fínu lagi enda hafi það komið fram í matsskýrslu. En hvernig hyggst Landsvirkjun bregðast við fram komnum ábendingum að hið sama geti gerst í Mývatni?

Birt:
5. apríl 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Landsvirkjun og umheimurinn“, Náttúran.is: 5. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/05/landsvirkjun-og-umheimurinn/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: