Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur í dag skipað Stefán Thors í embætti ráðuneytisstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Embættið var auglýst laust til umsóknar þann 12. janúar sl. og þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd var skipuð í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, sbr. reglur nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands.

20 sóttu um embættið og hæfnisnefnd mat tvo umsækjendur hæfasta, þau Sigríði Auði Arnardóttur og Stefán Thors. Ráðherra tók að loknum viðtölum ákvörðun um að skipa Stefán Thors í embætti ráðuneytisstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Stefán Thors útskrifaðist með meistaragráðu frá skipulagsdeild Arkitektaskólans í Kaupmannahöfn árið 1976, að loknu sex ára háskólanámi og lagði stund á viðbótarnám í skipulagsfræðum í Stokkhólmi árið 1978 og hefur sem skipulagsstjóri sótt fjölmörg námskeið m.a. á sviði stjórnunar og verkefnastjórnunar. Hann hefur starfað hjá opinberum skipulagsyfirvöldum frá árinu 1976, að frátöldum fjórum árum sem hann vann sjálfstætt við ráðgjafarþjónustu í skipulagsmálum. Hann var skipaður skipulagsstjóri ríkisins árið 1985 og forstjóri Skipulagsstofnunar 1. janúar 2011. Alls hefur hann því rúmlega 27 ára reynslu af stjórnun. Meðal mikilvægra þátta í reynslu hans má nefna náið samstarf við ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila um land allt. Þá hefur hann í störfum sínum stöðugt fjallað um viðfangsefni þar sem meta þarf vægi milli verndunar- og nýtingarsjónarmiða, sem segja má að sé kjarninn í starfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Sem skipulagsstjóri og forstjóri hefur Stefán frá upphafi tekið þátt í samráði forstöðumanna stofnana sem heyra undir ráðuneytið og þekkir því vel til flestra verkefna ráðuneytisins. Þá hefur hann fyrir hönd þeirrar stofnunar sem hann hefur stýrt tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Stefán er kvæntur Guðrúnu Gunnarsdóttur myndlistarmanni og eiga þau tvo uppkomna syni.

Í umsögn ráðgefandi hæfnisnefndar um Stefán Thors segir m.a.:

„Stefán hefur langa og farsæla stjórnunarreynslu í undirstofnun ráðuneytisins, þar sem tekist er á við flókin stjórnsýsluverkefni og hann hefur því yfirgripsmikla þekkingu á verkefnasviði ráðuneytisins. Framtíðarsýn Stefáns varðandi uppbyggingu og verkefni nýs ráðuneytis er mjög skýr og hann er sterkur greinandi sem á auðvelt með að ná yfirsýn“.

Stefán er skipaður í embætti ráðuneytisstjóra til fimm ára frá deginum í dag að telja og mun þegar hefja störf í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sjá rökstuðningur ráðherra varðandi ráðninguna.

Ljósmynd: Stefán Thors.

Birt:
2. apríl 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Stefán Thors ráðinn ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins“, Náttúran.is: 2. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/02/stefan-thors-radinn-raduneytisstjori-umhverfis-og-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: