Úr Búnaðarbálki Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal fáum við eftirfarandi viðmið um sáningu og plöntun. Er þá fylgt ferð tunglsins gegnum stjörnumerkin, en það tekur það rúma tvo daga að ferðast gegnum hvert merki á sinni 28-29 daga hringferð. Vegvísi þarf til að rækta með hjálp mánans og stjarnanna, en gangur himintunglanna er breytilegur frá ári til árs. Sérstakt bændaalmanak sem inniheldur þessr upplýsingar er gefið út í flestum löndum umhverfis okkur á hverju ári til að hægt sé að átta sig á frjósemi hinna einstöku daga.Að auki taka nokkrir menn mark á því hvar tungl er í himinteiknunum. Þeirra regla er þessi:

  • Þeir sá því, sem ofan jarðar á að vaxa, í tvíbura-, vigtar- og vatnsberamerkjum.
  • Hinu sem undir jörð á að vaxa í hrúts-, meyjar- og steingeitarmerkjum.
  • Heitum kryddjurtum vilja þeir sá í tarfs-, bogmanns og ljónsmerkjum.
  • Í sporðdreka-, krabba- og fiskamerkjum vilja þeir hvorki sá né planta.
  • Tunglið sem ferðast um hvert stjörnumerki á rúmlega tveimur sólarhringum hefur þá sömu áhrif og stjörnumerkið sjálft.

Hrútsmerkið byrjar nær 20. mars og stendur til um 20. apríl. Hrútsmerkið er góð viðmiðun til ræktunar burtséð frá gangi tunglsins. Á boðunardegi Maríu eða 25. mars sem er rétt eftir jafndægur er talið gott að setja fram kartöflur í spírun. Gulrótum má sá úti, þegar jörð er orðin frostlaus og sæmilega vorar, ef garðurinn er vel staðsettur og sama gegnir um harðgerar plöntur ef þær eru vel varðar með plasti eða akryldúkum og jafnvel teppi breytt yfir komi frostakafli eða frostnætur. Næpum og rófum má forsá inni eða í gróðurskýli. Séra Björn Halldórsson mælir með því að setja næpnafræ í sætt vín og láta spíra og gefi það betra bragð ef jörðin „sé góð og sæt einnig en hvorki súr né barkand”.

Áður fyrr smökkuðu menn á jörðinni til að skynja súrleika og samsetningu hennar. Gulrótnafræ eru oftlega lögð í bleyti upp undir tvo sólarhringa og síðan þurrkuð nokkuð og ef til vill blandað saman við graut, eða fínan sand til að vera meðfærilegri í sáningu. Í eldsmerkinu hrútnum er fræið að sækja í sig veðrið og langar til að fara að vakna og tútna út. Ekki er talið viturlegt að aðhafast neitt varðandi gróður á föstudaginn langa, hvernig sem stendur á tungli eða hver sem trúartilfinning ræktandans kann að vera.

Hjá heimaræktendum hér á landi sem ekki hafa því betri inniaðstöðu til að byrja snemma er flestum jurtum er sáð í nautsmerkinu sem hefst nálægt Sumardeginum fyrsta og stendur u.þ.b. frá 20. apríl til 20. maí. Það er gott sé að hafa lokið við að sá á þessum tíma og það er hægara nú þegar auðvelt er að skýla plöntum úti með dúkum. Jarðarmerki eins og nautið örvar rótarvöxt og það fyrsta sem fræið gerir er að setja út rótarangann og festa sig við jörðina, svo það skolist ekki burt. Gegnum rótina nærist fræið á vatnsupplausn úr jörðinni. Gott er að sá oftar en einu sinni með tveggja vikna millibili til að uppskera yfir lengri tíma. Á þetta einkum við um t.d. radísur, dill, salat, basiliku, og blómkál sem verður að uppskera þegar plantan er þroskuð en stendur ekki lengi.

Tvíburamerkið hefst nálægt 20. maí og stendur fram að Jónsmessu. Þetta er fyrsta loftsmerkið. Á kímblaðastigi tvíburamerkisins fer plantan að læra að nýta sér næringu úr loftinu, en hefur fram að því fengið hana aðeins gegnum rótarsporðinn. Því er betra að vera búinn að sá og nú skulu síðustu plönturnar koma sér á legg og læra að vaxa. Margar plöntur sem sáð var til úti eru einmitt nú á kímblaðastiginu.

Krabbamerkið eða fyrsta vatnsmerkið hefst um 20. júní eða nálægt Jónsmessu. Það er góð þumalfingurregla að vera búin að sá og planta út á þjóðahátíðardaginn og skipta um gír fyrir sumarið. Nú fer stöngull plöntunnar að þróast og styrkjast og sogkerfið að vinna á fullu. Það er ekki lengur tími fræsins. Plantan er sjálf tekin við og sér um sig.

Eins norðarlega á hnettinum eins og á Íslandi verður oft að laga sig að sólarhlýju og vorkomu og láta það hafa forgang fram yfir afstöðu tungls eða dagatöl. Enda er sólin kvenkyns og hefur í þjóðtrú meira orðspor fyrir að vera gefandi og græðandi en tunglið því áhrif hennar sem hitagjafa eru afgerandi á allan vöxt. Engu að síður hefur í öllum fornmenningum verið sterk trú að betra sé að planta eftir tungli og er enn svo hjá velflestum þjóðum þó svo hér á landi hafi þessi forni siður verið nokkuð víkjandi.

Ljósmynd: Sáningapottar í gróðurhúsi mínu þ. 13. maí 2011, Guðrún Tryggvadóttir.

Ætigarður Hildar Hákonardóttur fæst hér á Náttúrumarkaði.
*Rit Björns Halldórssonar fæst hér á Náttúrumarkaði.

Birt:
10. mars 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Viðmið um sáningu og plöntun sé farið eftir stjörnumánuðum“, Náttúran.is: 10. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/21/vimi-um-sningu-og-plntun-s-fari-eftir-stjrnumnuum/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. apríl 2007
breytt: 10. mars 2014

Skilaboð: