Munu komandi kynslóðir erfa gruggugt vatn með fátæklegra lífríki?

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Náttúruverndarsamtök Suðurlands standa sameiginlega fyrir málstofu um Þingvelli miðvikudaginn 3. apríl 2013. Málstofan verður í fundarsal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6 í Reykjavík, hefst kl. 14:00 og lýkur kl. 17:00. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Dagskrá málstofunnar verður þessi:

  1. Fulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum:  Inngangserindi
  2. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona: Heimsókn til Þingvalla. Stuttar frásagnir með óbó-millispili Eydísar Franzdóttur.
  3. Hilmar J. Malmquist líffræðingur: Þingvallavatn. Einstakt vistkerfi undir álagi
  4. Pétur M. Jónasson vatnalíffræðingur: Heiðrun hans og ávarp
    Stutt hlé.
  5. Sigrún Helgadóttir líffræðingur: Þjóðgarðurinn Þingvellir,- fyrirlestur.
  6. Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari: Af vatni og fólki – mannlíf við Þingvallavatn á 20. öld
  7. Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur: Jarðminjar – fyrirlestur

Um fyrirlesarana er þetta helst að segja:

Hilmar J. Malmquist líffræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs hefur um árabil annast rannsóknir vatnssýna úr Þingvallavatni. Stutt samantekt hans á efni fyrirlestrarins er þessi:

Fjallað verður um sérstöðu Þingvallavatns og ástand vatnsins m.t.t. vatnsgæða og álagsþátta, einkum er varðar efnamengun og loftslagshlýnun. Byggt er að mestu á niðurstöðum í vöktunarverkefni sem Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur tekið þátt í með árlegri sýnatöku síðan 2007, en einnig er stuðst við niðurstöður annarra rannsókna sem sumar hverjar ná allt aftur til 1907. Rannsóknaniðurstöður sýna að umtalsverðar breytingar hafa átt sér stað í efna- og eðlisþáttum og lífríki vatnsins á undanförnum áratugum. Þingvallavatn hefur hlýnað í kjölfar loftslagshlýnunar, styrkur næringarefna í írennsli vatnsins norður í þjóðgarðinum lítur út fyrir að hafa aukist og þörungamagn úti í vatnsbolnum hefur vaxið og rýni minnkað. Þá gætir staðbundinnar hitamengunar við sunnanverða strönd vatnsins af völdum Nesjavallavirkjunar. Þrátt fyrir framangreindar breytingar og áhrif af mannavöldum er ástand Þingvallavatns enn mjög gott samkvæmt viðmiðum fyrir umhverfisbreytur í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Ef heldur fram sem horfir er hins vegar hætt við að margrómaður blámi og tærleiki Þingvallavatns muni rýrna með tilheyrandi skakkaföllum fyrir lífríkið.

Sigrún Helgadóttir, líffræðingur, er í fremstu röð fræðimanna um íslenska þjóðgarða og hefur unnið einarðlega að náttúruverndarmálum. Bók hennar Jökulsárgljúfur – Dettifoss kom út árið 2008 og hlaut fræðiritaverðlaun Hagþenkis árið eftir. Síðustu ár hefur hún unnið að rannsóknum á sögu og náttúrufari Þingvalla og árið 2011 kom út bók hennar Þingvellir – Þjóðgarður og heimsminjar. Það er fjölbreytt vandað fræðirit og hverjum þeim, sem njóta vill þeirrar náttúruperlu, mikill fengur.

Sigurður Steinþórsson, jarðfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, var í forustusveit þeirra ungu jarðfræðinga sem höfðu áttað sig á mikilvægi landrekskenningarinnar í jarðsögu Íslands á sjöunda áratug 20. aldar. Honum eru gliðnunarbelti Íslands svo sem um Þingvelli vel kunn og þekkir því jarðmyndanir og jarðsprungukefi þar og þá um leið vatnasvið Þingvallavatns. Þá hefur hann einnig góða þekkingu á sögu íslenskra jarðfræðirannsókna.

Ljósmynd: Þingvallavatn ©Árni Tryggvason.

Birt:
22. mars 2013
Tilvitnun:
Björn Pálsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Málstefna um Þingvelli: Blámi og tærleiki Þingvallavatns í hættu!“, Náttúran.is: 22. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/22/malstefna-um-thingvelli-blami-og-taerleiki-thingva/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: