Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Landsvirkjun að tilkynna Skipulagsstofnun hið fyrsta að fyrirtækið hyggist láta meta að nýju þau umhverfisáhrif Bjarnarflagsvirkjunar sem kunna að ógna lífríki Mývatns.

Fram hafa komið alvarlegar ábendingar um að Bjarnarflagsvirkjun geti valdið miklum skaða á lífríki Mývatns. Til dæmis er ekki ljóst hversu mikillar kólnunar má vænta á grunnvatnsstraumi til Mývatns við fyrirhugaða orkuvinnslu.


Fram kom í máli Harðar Arnarsonar í fréttum ríkissjónvarpsins þann 15. október s.l. að Landsvirkjun hafni því alls ekki að nýtt umhverfismat fari fram. Jafnframt að Landsvirkjun vilji koma til móts við kröfur varðandi umhverfismál enda sé það í samræmi við stefnu Landsvirkjunar. Skýr yfirlýsing Landsvirkjunar um að Mývatn og lífríki þess verði látið njóta vafans er löngu tímabær.

Náttúruverndarsamtökin benda á að Umhverfisstofnun hefur beint því til skipulagsfulltrúa Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps að þar eð

... nokkur langur tími er liðinn frá því mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar fór fram telur stofnunin að endurmeta ætti áhrif allrar losunar affalsvatns með hliðsjón af því hvernig tekist hefur til við sambærilega losun í öðrum háhitavirkjunum. Þetta verði gert í ljósi mikilvægis Mývants, sbr. lög um verndun Mývatns nr. 97/2004 en markmið lagana er að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Fram kemur á vefsíðu Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn þann 9. október s.l., að;

Kólni svæðið mun það leiða af sér minna kísilstreymi til Mývatns, en kísilmagn í vatni fer eftir vatnshitanum.  Núna berast með jarðhitavatni um 10 tonn af kísli á dag til Mývatns og er hann undirstaða undir hinni auðugu kísilþörungaflóru þar.

Á vefsíðu Náttúrurannsóknarstöðvarinnar þann 15. júní segir, að;

Kísillinn berst með náttúrulegu jarðhitavatni og er afar mikilvægt að röskun verði ekki á því. Þegar Bjarnarflagsvirkjun var til umfjöllunar, fyrir tólf árum síðan, var talið að dæla mætti borholuvatni aftur ofan í jörðina svo að það myndi aldrei koma nálægt grunnvatnsrennsli til Mývatns. Þar að auki væri þynning vatnsins það mikil að þess myndi aldrei gæta að ráði.  Nú hefur aflast þekking og reynsla af förgun afffallsvatns í öðrum virkjunum og er ljóst að hún gengur ekki sem skyldi. Þá er einnig þess að geta að niðurstöðum tveggja rannsókna á rennsli vatns frá Bjarnarflagi ber ekki saman og er þörf frekari rannsókna á því. Loks ber að nefna að þekkingu okkar á Mývatni og vistkerfi þess hefur fleygt fram á þessum tólf árum og menn þekkja nú betur sögu þess og gangverk, m.a. hversu viðkvæmt lífríkið er fyrir litlum breytingum á undirstöðuþáttum er snerta næringarflæði í vatninu.

Mývatn er heimsfræg náttúruperla og Ísland hefur tilnefnt Mývatn og Laxá sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum. Þar með tók Ísland á sig alþjóðlegar skuldbindingar um að vernda lífríki þess og Laxár.

Nýtingartími jarðvarmavirkjana á borð við Bjarnarflagsvirkjun kann að vera takmarkaður við eina eða tvær kynslóðir. Á hinn bóginn gæti tjón af völdum Bjarnarflagsvirkjunar orðið varanlegt. Slíka áhættu má ekki taka.

Birt:
21. mars 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Landsvirkjun að meta áhættuþætti Bjarnarflagsvirkjunar“, Náttúran.is: 21. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/21/natturuverndarsamtok-islands-skora-landsvirkjun-ad/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: