Andmælaréttur landeigenda á Vatnsleysuströnd, sem eiga yfir höfði sér eignarnám, er í raun ekki virtur þar sem Orkustofnun hefur synjað þeim um að fá afhent gögn. Þetta segir lögmaður landeigenda.

Mánuður er síðan Landsnet óskaði eftir því við atvinnuvegaráðherra að fyrirtækið fengi að taka jarðir á Vatnsleysuströnd eignarnámi til þess að leggja raflínur og reisa möstur. Ósamið er um afnotarétt við tæplega 40 prósent af eigendum þess landsvæðis sem línurnar fara um.

Ásgerður Ragnarsdóttir, lögmaður landeigendanna, hefur reynt að fá afhent gögn frá Orkustofnun en ekki haft erindi sem erfiði. Búið sé að kæra ákvörðun Orkustofnunar um takmörkun á aðgangi að gögnum sem fylgt hafi með umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi frá stofnuninni.

Ásgerður segir brýnt að fá gögnin afhent, þau feli í sér hagkvæmnisrök Landsnets og kostnaðarmat. Landeigendur vilja að sérfræðingar fari yfir gögnin. Synjun Orkustofnunar hafi mikil áhrif á rétt landeigenda til andmæla. Ásgerður segir að landeigendur telji hana í rauninni gera andmælaréttinn að litlu sem engu og leiða til þess að hann verði ekki virtur í framkvæmd.

Ekki fengust upplýsingar frá atvinnuvegaráðuneytinu um stöðu eignarnámsbeiðninnar.

Ljósmynd: Háspennumastur, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
20. mars 2013
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Landeigendur kæra Orkustofnun“, Náttúran.is: 20. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/20/landeigendur-kaera-orkustofnun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: