Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Alþingi að tryggja framgang náttúruverndarfrumvarps
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent þingmönnum eftirfarandi bréf:
Ágætu þingmenn
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um náttúruvernd. Brýnt er að endurskoða gildandi lög og færa lagaákvæði um náttúruvernd til nútímahorfs. Munar þar mestu um að frumvarpið kveður á um innleiðingu á meginreglum umhverfisréttarins, t.d. varúðarreglunni og greiðslureglunni.
Á sínum tíma beitti umhverfisráðherra Framsóknaflokksins, Jónína Bjartmarz, sér fyrir lögfestingu meginreglna umhverfisréttarins en tókst ekki. Einnig má nefna að undir forustu Eysteins Jónssonar gegndi Framsóknarflokkurinn lykilhlutverki í þróun náttúruverndarlöggjafar á Íslandi. Því vekur sérstaka athygli að Framsóknarflokkurinn leggst nú í fyrsta sinn þvert gegn frumvarpi til laga um náttúruvernd. Á hinn bóginn helgast afstaða Sjálfstæðisflokksins af andstöðu þingmanna hans við meginreglur umhverfisréttarins sem liggja til grundvallar umhverfislöggjöf Evrópuríkja, gerð alþjóðalaga og alþjóðasamninga.
Íslendingar mega ekki verða eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum enda hljóta meginreglur umhverfisréttarins að vera forsenda hins græna hagkerfis. Ennfremur, þjóð sem byggir afkomu sína á sölu sjávarafurða verður að standa í fremstu víglínu fyrir umhverfisvernd.
Frumvarpið byggir á Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands sem kom út 2011 og rædd var í þaula á umhverfisþingi sama ár. Hvítbókin byggði á vinnu fjölda sérfræðinga um náttúru landsins, auk fulltrúa almannasamtaka. Aðkoma almennings að gerð þessa frumvarps og meiri en áður hefur þekkst. Aldrei áður hefur verið gerð jafn ítarleg greining á íslensku náttúrufari, sérkennum þess og hvernig unnt sé að tryggja verndun náttúru landsins með nýrri og öflugri löggjöf.
Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Alþingi að tryggja framgang þessa frumvarps.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Alþingi að tryggja framgang náttúruverndarfrumvarps “, Náttúran.is: 16. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/16/natturuverndarsamtok-islands-skora-althingi-ad-try/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.