Siv Friðleifsdóttir, f.v. umhverfisráðherra Framsóknarflokksins ver enn þá ákvörðun sína að snúa við úrskurði Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn Kárahnjúkavikjun vegna þess að umhverfisáhrif virkjunarinnar væru óviðunandi í skilningi laganna og að mikið af upplýsingum um þau áhrif hafi skorti í matsskýrslu Landsvirkjunar.

Ákvörðun Sivjar Friðleifsdóttur var í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þann 13. september 2001, viku eftir að umhverfisráðherra barst stjórnsýslukæra Landsvirkjunar, sagði Halldór Ásgrímsson í viðtali við Morgunblaðið: ... aðalatriðið er það, að þetta verði að veruleika og ríkisstjórnin er ákveðnari í því en nokkru sinni fyrr að þetta verði að veruleika.”

Með öðrum orðum, hefði að Siv Friðleifsdóttir staðfest úrskurð Skipulagsstofnunnar mátti henni þegar í upphafi vera ljóst af viðbrögðum forustumanna ríkisstjórnarinnar að þar með væri ráðherraferli hennar lokið. Séð út frá eigin hagsmunum Sivjar var því ákvörðun hennar því rétt.

Ákvörðun umhverfisráðherra ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímsson byggði meðal annars á því að túlka 37. gr. náttúruverndarlaga með öðrum og víðari hætti en Skipulagsstofnun gerði í úrskurði sínum og byggði meðal annars á umsögn Náttúruverndar ríkissins. Þar með felldi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, gengi náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 umtalsvert, einkum 37. gr. laganna um þær jarðmyndanir og vistkerfi sem „… njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:”

Hefði Siv Friðleifsdóttir túlkað 37. greinina með sama hætti og Náttúruvernd ríkisins, Skipulagsstofnun eða jafnvel Náttúruverndarsamtök Íslands, þá hefði hún með ákvörðun sinni styrkt náttúruverndarlöggjöfina verulega. Það gerði hún ekki vegna eigin hagsmuna og þeirrar ríkisstjórnar sem hún þjónaði og þess vegna var ákvörðun Sivjar Friðleifsdóttur um Kárahnjúkavirkjun röng og siðlaus.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til náttúruverndarlaga sem myndi styrkja náttúruverndarlöggjöfina umtalsvert nái það fram að ganga. Flokkur Sivjar Friðleifsdóttur, Framsóknarflokkurinn, styður frumvarpið ekki og Sjálfstæðisflokkurinn leggst mjög gegn því. Afstaða þessara tveggja flokka til frumvarpsins mótast öðru fremur af stefnu þeirra í virkjana og stóriðjumálum.

Birt:
14. mars 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Ákvörðun Sivjar - rétt eða röng“, Náttúran.is: 14. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/14/akvordun-sivjar-rett-eda-rong/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: