ASÍ hefur efnt til átaks á netinu þar sem fólk er hvatt til að veita fyrirtækjum aðhald í verðlagsmálum. Fjöldi ábendinga hefur borist um verðhækkanir en fólk lætur líka vita hvar hægt er að gera góð kaup.

Hækkuð leiga á bankahólfum, hækkað verð á matvælum, hundamat, barnaskóm og smurolíu eru meðal fjölmargra ábendinga frá neytendum um verðhækkanir á vef ASÍ í tengslum við átakið Vertu á verði sem hófst þann 26. febrúar síðastliðinn. Ábendingar um verðlækkanir eru miklu færri, en til dæmis er bent á gott verð á rúnnstykkjum í bakaríi og afslátt á grænmeti og ávöxtum í matvöruverslun.

Markmiðið með átakinu Vertu á verði er að veita verslunar- og þjónustuaðilum aðhald, hvetja þá til að sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir. Markmiðið er einnig að brýna fyrir almenningi að vera á verði og fylgjast vel með þróun verðlags.

Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ, segir fulltrúa nokkurra verslana hafa haft samband og gefið skýringar vegna ábendinga neytenda. „Einhverjir hafa talið að hlutirnir séu öðruvísi en neytendur upplifa þá og sumir eru ósáttir við vettvanginn. Það að fyrirtæki séu pínulítið ósátt segir okkur að þetta hefur áhrif.“

Búið er að koma upp athugasemdakerfi á vefnum, að því er Henný greinir frá. "Nú geta bæði neytendur komið með sínar athugasemdir og kaupmenn gefið skýringar vegna ábendinganna ef þeir vilja."

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segir í viðtali við Fréttablaðið að það sé rétt að ársleiga á bankahólfi hafi hækkað á undanförnum árum. „Ástæðan er einfaldlega sú að ársleigan hafði haldist nær óbreytt um nokkurt skeið og var svo komið að tekjur vegna leigunnar dekkuðu ekki kostnað vegna þjónustunnar. Því hefur reynst nauðsynlegt að hækka leiguna. Ég held nú að þrátt fyrir þessa hækkun sé verðið sanngjarnt, sjö til tíu þúsund krónur fyrir ársleigu, eftir stærð hólfsins. Viðskiptavinir sem eru í vildarþjónustu bankans greiða aðeins fjögur til sjö þúsund krónur.“

Í einni af ábendingunum á vefnum kveðst neytandi hafa keypt ýsu í raspi í Krónunni en í ljós hafi komið að ýsan hafi verið karfi í dulargervi. Ólafur Júlíusson, innkaupastjóri ferskvöru hjá Kaupás, segir þetta ekki rétt. „Í raspi er litarefni sem litar yfirborðið á ýsunni og gerir það rauðleitt. Þar af leiðandi getur viðskiptavinurinn ruglast vegna litarins en bragðið og útlitið á karfa er allt annað en á ýsu.“

Sjá nánar á vertuaverdi.is.

Birt:
March 14, 2013
Höfundur:
ibs
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
ibs „Vertu á verði!“, Náttúran.is: March 14, 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/14/vertu-verdi/ [Skoðað:July 3, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: