Um áhrif Kárahnjúkavirkjun, Lagarfljót og virkjanaáform
Nú hefur sannast með hörmulegum hætti að varúðar- og gagnrýnisraddir um neikvæð áhrif Kárahnjúkavirkjunar á lífríki Lagarfljóts höfðu rétt fyrir sér. Bakkar fljótsins brotna niður og gegnsæi vatnsins stórminnkar með þeim afleiðingum að fiskur er að hverfa. Þar með er ljóst að eitt af fegurstu vötnum landsins hefur orðið fyrir stórskaða og er vitnistburður um fyrirhyggjuleysi þeirra predikuðu hvað mest fyrir þessari risavirkjun sem án vafa er mesta eyðilegging á náttúru landsins af mannavöldum.
Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að krafan um heiðarlega og vandvirka athugun á afleiðingum virkjana verði ófrávíkjanleg. Það leiðir hugann að áformum Landsvirkjunar um virkjun í Bjarnarflagi. Kanna verður í þaula áhrif þeirrar virkjunar á lífríki Mývatns sem er ein dýrmætasta perla Íslands eins og allir vita. Engu má þar skeika þar eð fram hafa komið ábendingar um að virkjunin geti valdið,
minna kísilstreymi til Mývatns, en kísilmagn í vatni fer eftir vatnshitanum. Núna berast með jarðhitavatni um 10 tonn af kísli á dag til Mývatns og er hann undirstaða undir hinni auðugu kísilþörungaflóru þar.
Á vefsíðu Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn þann 15. júní, 2012 segir, að:
Kísillinn berst með náttúrulegu jarðhitavatni og er afar mikilvægt að röskun verði ekki á því. Þegar Bjarnarflagsvirkjun var til umfjöllunar, fyrir tólf árum síðan, var talið að dæla mætti borholuvatni aftur ofan í jörðina svo að það myndi aldrei koma nálægt grunnvatnsrennsli til Mývatns. Þar að auki væri þynning vatnsins það mikil að þess myndi aldrei gæta að ráði. Nú hefur aflast þekking og reynsla af förgun afffallsvatns í öðrum virkjunum og er ljóst að hún gengur ekki sem skyldi. Þá er einnig þess að geta að niðurstöðum tveggja rannsókna á rennsli vatns frá Bjarnarflagi ber ekki saman og er þörf frekari rannsókna á því. Loks ber að nefna að þekkingu okkar á Mývatni og vistkerfi þess hefur fleygt fram á þessum tólf árum og menn þekkja nú betur sögu þess og gangverk, m.a. hversu viðkvæmt lífríkið er fyrir litlum breytingum á undirstöðuþáttum er snerta næringarflæði í vatninu.
Umhverfisstofnun hefur beint því til skipulagsfulltrúa Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps að þar eð
... nokkur langur tími er liðinn frá því mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar fór fram telur stofnunin að endurmeta ætti áhrif allrar losunar affallsvatns með hliðsjón af því hvernig tekist hefur til við sambærilega losun í öðrum háhitavirkjunum. Þetta verði gert í ljósi mikilvægis Mývants, sbr. lög um verndun Mývatns nr. 97/2004 en markmið lagana er að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
Í öðru lagi er það afdráttarlaus krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands að frumvarp til náttúruverndarlaga verði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir þinglok. Ekki verður öðru trúað enda væri þaði mikill hneisa ef atvinnu- og nýsköpunarráðherra knýr í gegn lög um uppbyggingu kísilmálmvers á Bakka ef flokkur hans lætur síðan hjá líða að styrkja og efla lög um náttúruvernd.
Kárahnjúkavirkjun ber vitni um óafsakanlegt ábyrgðarleysi þeirra stjórnmálaafla sem hvað harðast gengu fram í því að virkjunin yrði byggð. Þeir hunsuðu athugasemdir og niðurstöður Skipulagsstofnunar og höfðu að engu þær viðvaranir vísindamanna og fagstofnanna þar sem komu fram sem og víðtæk andmæli náttúruverndarsamtaka.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Um áhrif Kárahnjúkavirkjun, Lagarfljót og virkjanaáform“, Náttúran.is: 12. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/12/um-ahrif-karahnjukavirkjun-lagarfljot-og-virkjanaa/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.