Daði Hall meistaranemi stendur fyrir viðhorfskönnun á netinu um það hvort fólk myndi nýta sér hjólaleigukerfi ef boðið væri upp á slíkt í Reykjavík. Þess konar kerfi er að finna í borgum víða um heim.

Daði vinnur nú meistaraverkefni í umhverfis- og auðlindafræði í samstarfi við verkfræðiskrifstofuna Verkís. Verkefnið felst í því að kanna möguleika og hagkvæmni þess að reka hjólaleigukerfi í Reykjavík. Kerfið væri svipað þeim sem rekin eru í fjölda borga víðs vegar um heim. „Þetta væri þriðja kynslóð af hjólaleigukerfi, sem þýðir að notendur skrá sig inn með einhvers konar auðkenni; á netinu, með kreditkorti, síma eða með öðrum hætti. Þannig veit kerfið ávallt hver er með hvaða hjól og jafnvel hvar það er,“ segir Daði.

Hjólin væru læst í sérstökum hjólastöndum sem komið væri fyrir á viðeigandi stöðum. „Þegar viðskiptavinur greiðir fyrir hjól aflæsist það. Tökum dæmi af manni sem leigir hjól á Hlemmi og hjólar vestur í Háskóla, þar væri annar hjólastandur þar sem hægt væri að skila hjólinu af sér.“

Spurður um staðsetningu slíkra stöðva segir Daði könnunina einmitt taka mið af því hvar fólk vilji fá slíkar stöðvar. „Sjálfur teldi ég að æskilegt væri að hafa þær hjá strætóstoppistöðvum, stórum vinnustöðum, bílastæðahúsum og fjölförnum stöðum. Vel heppnað kerfi sem væri samtvinnað strætó gæti styrkt strætó og strætó styrkt hjólakerfið.“

Daði hefur fundið mikinn áhuga þeirra aðila sem málið snertir eins og hjá borgaryfirvöldum og Strætó. „Þetta er allt spurning um peninga, sem er víst lítið til af um þessar mundir. Í Denver er svona hjólakerfi rekið á samfélagslegum grunni og ekki gerð krafa um neinn hagnað. Svo er líka spurning hvort einhver fyrirtæki vildu taka þátt í að skapa svona kerfi.“

Um þessar mundir vinnur Daði að kostnaðargreiningu á kerfinu auk greiningar á samfélags- og umhverfislegum ávinningi þess. „Minni umferð, minni mengun, bætt lýðheilsa og meiri strætónotkun. Þetta eru allt þættir sem þarf að að skoða og taka inn í myndina.“

Fólk er hvatt til að taka þátt í könnunni á slóðina www.kannanir.is/nemendur/index.php?sid=48788&lang=is. "Því fleiri sem taka þátt, þeim mun marktækari verða niðurstöðurnar." Einnig er hægt að fletta Daða upp á Facebook og finna könnunina þar.

Birt:
8. mars 2013
Höfundur:
vidir@365.is
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
vidir@365.is „Hjólaleigukerfi í Reykjavík“, Náttúran.is: 8. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/08/hjolaleigukerfi-i-reykjavik/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: