Hrossakjöt í tilbúnum matvörum af erlendum uppruna vakti neytendur um allan heim af værum blundi fyrir nokkrum vikum. Matvælaeftirlitsaðilar fengu ærlegt sjokk og gerðu sér grein fyrir hve máttlaust eftirlit þeirra hefur verið hingað til. Grunur um að eftirlit með þeim matvörum sem okkur manneskjunum er boðið upp á væri ekki nægjanlegt hefur svo sem verið fyrir hendi en við neytendur verðum jú að treysta á að kerfið passi upp á okkur ekki satt? Raunveruleikinn er því miður annar og spurning hvort að traustið verði nokkurn tíma endurheimt.

Matvælastofnun fyrirhugar að halda málþing um merkingar matvæla víðsvegar um landið í marsmánuði. Matvælafyrirtæki bera ábyrgð á eigin framleiðslu og upplýsingagjöf til neytenda og mun Matvælastofnun taka málið upp við samtök hagsmunaaðila með það fyrir augum að ná fram skjótum úrbótum. Rétt merking matvæla er mikið hagsmunamál fyrir neytendur og geta rangar merkingar m.a. verið varasamar þeim sem eru með matarofnæmi eða óþol.

Matvælastofnun var að ljúka við rannsókn á kjötinnihaldi 16 íslenskra matvæla:

Rannsókn Matvælastofnunar á kjötinnihaldi 16 íslenskra matvara sýnir að Gæðakokkar í Borgarnesi hafa framleitt og markaðssett tvær vörur sem sagðar eru innihalda nautakjöt en niðurstöður rannsóknarinnar sýna að svo er ekki. Engin vara sem skoðuð var í rannsókninni uppfyllti allar kröfur um merkingar.

Matvælastofnun lét nýverið rannsaka kjötinnihald 16 íslenskra matvara á markaði til að kanna hvort þær innihéldu hrossakjöt án þess að þess væri getið á umbúðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hrossakjöti hafði ekki verið blandað í vörurnar. Hins vegar kom í ljós að engin þessara vara uppfyllti allar kröfur um merkingar og reyndust tvær vörur ekki innihalda nautakjöt þrátt fyrir merkingar þar um.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að Nautabaka frá Gæðakokkum í Borgarnesi sem sögð var innihalda 30% nautahakk í fyllingu, sem átti að vera helmingur af þyngd vörunnar, innihélt ekkert kjöt (ekkert dýraprótein). Lambahakkbollur framleiddar af sama aðila fyrir Kost og sagðar innihalda lamba- og nautakjöt innihéldu eingöngu lambakjöt. Matvælastofnun hefur vísað þessum málum til rannsóknar og ákvörðunartöku hjá þeim heilbrigðiseftirlitssvæðum sem fara með opinbert eftirlit með viðkomandi fyrirtækjum. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefur þegar farið fram á innköllun á Nautabökum frá Gæðakokkum og verða frekari aðgerðir vegna málsins teknar í framhaldinu.

Engin vara uppfyllti allar kröfur um merkingar, en alvarlegt er þegar neytendur geta ekki treyst því að heiti vöru gefi rétta mynd af samsetningu hennar og það sama á við þegar innihaldslýsingar eru rangar eða veita ekki fullnægjandi upplýsingar um samsetningu matvöru. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga munu fylgja eftir málum vegna vanmerkinga sem í ljós komu við skoðun umbúða hlutaðeigandi vörutegunda. Rétt er að taka fram að í sumum tilvikum var aðeins um minniháttar athugasemdir að ræða.

Í eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga frá árinu 2011 um innihaldslýsingar matvæla og uppskriftir þeirra kom í ljós að í 16% tilfella komu ekki öll innihaldsefni uppskriftar fram í innihaldslýsingu á umbúðum. Þá voru nýlega birtar niðurstöður norræns eftirlitsverkefnis um merkingar matvæla í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi á tímabilinu 2010 til 2012. Þær sýna að fimmta hver vara var ekki rétt merkt og að innihaldið passaði ekki við innihaldslýsingu í 9% tilfella. Ekki þarf annað en að skoða upplýsingasíðu Matvælastofnunar um innkallanir á vegum stofnunarinnar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga til að sjá að nokkuð skortir á að fyrirtæki hér á landi merki vörur sínar í samræmi við kröfur í löggjöf.

Sjá mynd af nautabökunni sem um ræðir hér að ofan.

Ljósmynd: Lambahakkbollumrnar sem um ræðir hér að ofan.

Birt:
27. febrúar 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Matvælastofnun „Matvælaeftirlit ekkert eða í molum?“, Náttúran.is: 27. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/27/matvaelaeftirlit-ekkert-eda-i-molum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. febrúar 2013

Skilaboð: