Imbrudagar
Þeir voru fjórum sinnum á ári, einu sinni á hverri árstíð, og hófust næsta miðvikudag eftir öskudag, hvítasunnu, krossmessu á haust og Lúsíumessu á jólaföstu. Um þá er til þessi minnisvísa: Öskum hvítasunnu, kross og Lúsíu næsta miðvikudag var eftir oss Imbra sett að fasta.
Í þessum vikum átti að fasta þrjá daga, þ.e. borða ekki kjöt á miðvikudegi, föstudegi né laugardegi. Þetta fyrirbæri heitir fullu nafni á latínu jejunia quator temporum , fjögurra árstíða föstur. Úr þeim orðum hafa orðið til ýmsar styttingar og afbakanir svo sem Quatember á þýsku, Tamperdag á dönsku og Emberday á ensku, sem mest líkist okkar afbrigði. Enda munum við hafa fengið orðið úr engilsaxnesku einsog margt fleira í kirkjumáli. Þar heita dagarnir nefnilega ymbrendagas og ymbrenfastan , en sú orðmynd er líklega þjóðskýring á einhverri latneskri afbökun og dregin af engilsaxnesku ymbryne, sem merkir umruni, skeið, umferð. Þar virðis orðið því þýða eitthvað svipað og „umferðaföstur“, þar eð þær voru haldnar öðru hverju árið um kring. Orðið kemur þegar fyrir í íslensku hómilíubókinni frá því um 1200, þar sem segir: “Móses bauð gyðingum að halda imbrudaga ferna á hverjum 12 mánuðum, eina of vor, en aðra of sumar, hina þriðju of haust, fjórðu of vetur. Á hverri tíð þessara fjögurra bauð hann lýð þriggja daga föstu.
Sennilega hafa imbrudagar í upphafi verið einskonar undirbúningsföstur fyrir stórhátíðirnar þrjár, páska, hvítasunnu og jól. Síðar hefur hinum fjórðu verið bætt við til samræmis við árstíðirnar, og er þeirra fyrst getið allra fjögurra seint á 5. öld. Hérlendis áttu fátækir að njóta nokkurs góðs af imbrudagaföstu. Í Grágás segir, að bóndi skal gefa innanhreppsmönnum þeim, er eigi gegna þingfararkaupi, tvo imbrunáttverði hjóna sinna, þeirra er til lögföstu eru skyld, og gefa eigi fiska náttverð. Skulu hreppsmenn skipta matgjöfum þeim með innanhreppsmönnum á haustsamkomu. Það voru ekki aðrir en hinir fátækustu, sem ekkert þingfararkaup þurftu að greiða, svo að hér virðist um þátt í fátækraframfærslu hreppanna að ræða. Athyglisvert er, að bíða í Evrópu voru menn hvattir til að gefa þennan mat sinn hinum aumu sálum þeirra manna, sem dáið höfðu óskírðir eða án iðrunar fyrir presti og kvöldus því í hreinsunareldinum. Má nærri geta, hvar sá matur hefur lent. Mönnum er ekki láandi, þótt þeir skildu lengstaf ekki þetta skrítna dagaheiti.
Í Hauksbók frá 14. öld kemur fyrir sú skilgreining, að nafn þeirra sé leitt af latínunni imbres, sem merkir regnskúrir, því að þeir séu „fyrst til regns settir“, þ.e. rigningardagar. Í rímtali sínu 1692 segir Þórður biskup Þorláksson þa „sýna nafn sitt af því latínska orði umbra eður skuggar, því þeir gömlu plöguðu að halda föstu á þeim dögum.“ Jón Sigurðsson segir það hafa verið munnmælasögu á Íslandi, að á Vestfjörðum hafi verið rík kona, Imbra að nafni, sem hafi haldið vinaboð fjórum sinnum á ári. Í stað þessa torskilda orðs hafa Íslendingar fundið annað, sem var sæludagar eða sæluvika. Það kemur nokkrum sinnum fyrir í Sturlungu og Sverrissögu, en síðan ekki með vissu fyrr en eftir siðbreytingu, en þá er það algengt í annálum síðari alda. Það er hinsvegar ekki notað í elstu almanökum frá 16., 17. og 18. öld. Virðist því frekar vera um alþýðuorð að ræða en lærðra manna, enda ekki að undra.
Trúlega er þetta heiti daganna upphaflega tengt orðinu sæla í merkingunni sál og gjöfum fyrir sálu sinni, sbr. sælubú, sæluhús, sæluskip, sem allt var rekið fyrir guðsþakkarfé. Seinna verður nútímamerking orðins sæla ráðandi, og var þá talið, að á þessum dögum hefðu fátækir átt að eiga það gott, sem að nokkru má til sanns vegar færa. Sæluvika Skagfirðinga er svo af öðrum toga. Uppruni hennar er mannfagnaður í lok sýslufunda og hófst sá siður í kringum 1875. Nafnið sæluvika mun þó ekki hafa farið að tíðkast um samkomuna fyrr en um 1920. Hún er nú sem kunnugt er oftast haldin seinni hluta marsmánaðar á Sauðárkróki.
Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Imbrudagar“, Náttúran.is: 20. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/imbrudagar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 26. febrúar 2013