Skógræktarritið í lausasölu
Skógræktarritið er nú fáanlegt í lausasölu á völdum stöðum en undanfarin ár hefur það eingöngu verið selt í áskrift og á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, útgefanda ritsins. Með þessu móti vill Skógræktarfélag Íslands koma til móts við lesendur sem kjósa að kaupa stök rit í stað áskriftar. Jafnframt er þetta liður í að kynna Skógræktarritið fyrir nýjum lesendum.
Skógræktarritið er nú fáanlegt í verslunum Pennans – Eymundsson, Iðu, Griffli, Bókabúð Máls og menningar, Garðheimum og í Hagkaupum í Garðabæ og í Skeifunni.
Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt og má þar nefna umfjöllun um tiltekna skóga, staði eða trjátegundir, hinar ýmsu hliðar ræktunar og ræktunarskilyrða, skipulag skógræktar, rannsóknir, ferðasögur, viðtöl, minningagreinar og margt fleira.
Skógræktarritið er vandað, fræðandi og skemmtilegt og er því bæði fyrir fagmanninn og áhugamanninn, sem er í smærri ræktun, til dæmis við sumarbústað eða í heimilisgarðinum. Ritið er upplögð lesning í sumarbústaðnum.
Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Örn Jónsson „Skógræktarritið í lausasölu“, Náttúran.is: 25. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/25/skograektarritid-i-lausasolu/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.