Að undanförnu hafa jeppaklúbburinn 4×4, Samút og Skotvís beitt sér mjög gegn nýju frumvarpi til laga um náttúruvernd. Grein Arne Sólmundssonar, varaformanns Skotvíss, í Morgunblaðinu 13. feb. vekur spurningar sem vert er að beina til Arne, með von um svör.

Arne segir:

„Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir ofurtrú stjórnvalda á að leysa sameiginlegan vanda með boðum og bönnum, enda er það eina lausnin sem er í boði, stundi menn ekki samráð.”

Um hvaða boð og bönn ertu að tala, Arne? Vera má að jeppakarlar viti hvað Arne á við en lesendur Morgunblaðsins hljóta að spyrja, hvað á maðurinn við?

„Aðalatriðið er að aðgengi sé tryggt án þess að spjöll hljótist af, óháð ferðamáta.”

Hverjar eru tillögur Skotvíss um hvernig skuli koma í veg fyrir náttúruspjöll? Utanvegaakstur er stórt vandamál, hefur valdið miklum spjöllum og Arne Sólmundsson bendir réttilega á að um „sameiginlegan vanda“ sé að ræða. Hvernig vill stjórn Skotvíss leysa málið?

Frumvarpið snýst um að vernda náttúruna en ekki að tryggja mönnum frjálsa för um landið óháð ferðamáta. Leggst Skotvís gegn þeirri forgangsröðun?

Ólíkir ferðamátar hafa mismunandi áhrif á náttúruna. Er þá ekki eðlilegt að mismunandi ákvæði eigi við um ólíka  ferðamáta? Vaxandi umferð vélknúinna ökutækja er ógn við öræfanáttúru hálendisins og væntanlega erum við sammála um að akstur utan vega skemmir og/eða eyðileggur ásýnd lands, jarðmyndanir og gróður. Er það ekki hinn sameiginlegi vandi? Ekki verður heldur deilt um að umferð vélknúinna ökutækja veldur hávaða sem rýfur þá kyrrð öræfanna sem margir eru að sækjast eftir. Skotvís hlýtur að vera okkur sammála um nauðsyn þess að takmarka umferð vélknúinna ökutækja og setja skýrar reglur um umferð þeirra í náttúru landsins. Er ekki svo?

„Drög að nýjum náttúruverndarlögum eru nú til umfjöllunar á Alþingi og sagan virðist vera að endurtaka sig. Stjórnvöld hafa ekkert lært af reynslunni þrátt fyrir alla gagnrýnina um skort á samráði og að ekki sé leitað í þekkingarbrunn almennings í gegnum frjáls félagasamtök á sviði útivistar, þ.e. þeirra sem eru að nýta sér þau lífsgæði sem felast í útivist og ferðalögum um landið.”

Vill Skotvís meina að frjáls félagasamtök á sviði útivistar hafi ekki átt þess kost að koma sínum skoðunum á framfæri við gerð þessa frumvarps? Hvar misstuð þið af lestinni?

„… þ.e. að innleiða boð og bönn, auka réttaróvissu meðal almennings og útbúa löggjöf sem gengur út á refsingar en ekki hvatningu og fræðslu þar sem almenningur í gegnum frjáls félagasamtök ætti að vera hluti af lausninni.”

Aftur, hvaða boð og bönn eru það sem Skotvís er andvígt sérstaklega? Hvers konar réttaróvissa mun skapast verði frumvarpið samþykkt? Sannarlega er það óskemmtilegt að refsa fólki sem ekki fer að settum lögum og reglum en hvernig skal virða umferðareglur ef engin viðurlög eru við umferðabrotum? Hvernig vill Skotvís tryggja að ekki verði ekið utan vega?

„Það er því ekki að ástæðulausu sem við höfum innleitt Árósasamninginn sem ítrekar einmitt aðkomu almennings þegar kemur að þessum málum. En hvað hefur breyst eftir innleiðingu Árósasamningsins, nákvæmlega ekkert!”

Aldrei nokkurn tíma varð ég þess var að Skotvís styddi innleiðingu Árósasamningsins sem ekki varð fyrr en haustið 2011 – 13 árum eftir að Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra undirritaði hann fyrir Íslands hönd. Ekki heldur 4×4 eða Samút. En, gott og vel, ákvæði samningsins eru fyrir öll almannasamtök sem vilja beita sér fyrir náttúruvernd og mjög alvarlegt mál er ef umhverfisráðuneytið hefur brotið á þeim sem vilja njóta náttúrunnar. Því verður að fara fram á að Arne Sólmundsson geri grein fyrir hvaða ákvæði Árósasamningsins voru brotin á félagsmönnum Skotvíss.

„Stjórnvöld styðjast mest við „Hvítbækur“ sem meginheimildir fyrir lagasetningu,”

Hvaða hvítbækur er verið að tala um? Eftir því sem næst verður komist hafa ekki verið gefnar út neinar hvítbækur á vegum stjórnvalda fyrr en árið 2011 þegar bókin Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands var gefin út, vandað rit og til mikillar fyrirmyndar. Vera má að Arne Sólmundsson þekki söguna betur en ég og gott væri þá að heyra af því.

Bestu kveðjur, Árni Finnsson.

Ljósmynd: Jeppi í fjallaferð, ©Árni Tryggvason.

Birt:
14. febrúar 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Skotvísi Arne Sólmundssonar“, Náttúran.is: 14. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/02/14/skotvisi-arne-solmundssonar/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: