Sprengidagur
Þetta er þriðjudagurinn í föstuinngang, áður síðasti dagur fyrir upphaf langaföstu. Önnur afbrigði nafnsins eru sprengikvöld og sprengir. Það er alkunna, að katólskar þjóðir gera sér nokkra glaða kjötkveðjudaga áður en fastan hefst. Upphaflega min hér um að ræða vorhátíðir í sunnanverðri Evrópu, sem síðan hafa runnið saman við föstuinnganginn. Ekki fer miklum sögnum um þvílíkt hátíðahald hérlendis fyrr á öldum, svo að sprengikvöld er eini kjötkveðjudagurinn, sem beinar spurnir eru af.
Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst strjálbýlið og örðugar samgöngur, sem gert hafa samkomudaga Íslendinga mun færri áður fyrr en annars staðar, einkum að vetrarlagi. Viljann hefur sjálfsagt ekki vantað, en það gefur augað leið, hversu hægara er um vik til þvílíkra athafna, þar sem búið er í þorpum eða öðru þéttbýli. Þá var og næsta auðvelt fyrir yfirvöld að hindra þvílíkar samkomur hérlendis, ef þeim bauð svo við að horfa. Og sú var einmitt raunin á. Í svokölluðum “norsku lögum” Kristjáns konungs 5., sem að einhverju leyti voru látin gilda hér, stendur m.a. þessi klausa, sem til er í mörgum handritum: “Allir óskikkanlegir og hneykslanlegir leikir um kól eður á öðrum tímum og föstugangshlaup fyrirbjóðast strengilega og eiga alvarlega að straffast.” Hægt er að sanna, að þessi lagaklausa hefur verið notuð hér sem röksemd gegn gleðisamkomum.
Nú má ljóst vera, að „föstugangshlaup“ um hávetur á Íslandi hefði orðið að fremja innanhúss. En þeir staðir, sem helst höfðu nógu rúmgóð húsakynni fyrir fjölmenn gleðilæti, voru einkum prestssetur og sýslumannasetur, einmitt hjá þeim, sem áttu að vaka yfir því, að boðum konungs og kirkju væri framfylgt. Það var því ekki við miklum samkvæmum að búast og gegnir raunar furðu, hvað þó var hægt að bralla á öðrum tímum, eins og fáein dæmi verða síðar rakin um. Nafnið sprengikvöld bendir eindregið til þess, að þá hafi menn reynt að ryðja í sig eins miklu og þeir gátu torgað af leti, floti og öðru lostæti, sem forboðið var á föstunni. Mun þá margur hafa hesthúsað meira en hann hafði gott af eða étið sig í spreng. Eru af því ýmsar skrítnar sögur. Sagan segir einnig, að leifarnar væru settar í poka og hengdar upp í baðstofumæni yfir rúmi hvers og eins. Þarna angaði freistingin fyrir augunum alla föstuna, en ekki mátti snerta fyrr en aðfaranótt páskadags. Sumir segja, að öllum leifum hafi verið safnað í einn belg, sem var hengdur upp í baðstofuna.
Auk átveislu hefur viss frjálslyndi í ástamálum löngum verið látið óátalið á kjötkveðjuhátíðum erlendis. Einhverjar sagnir um viðlíka athæfi hafa verið á kreiki hér á 19. öld. Segir þar, að á þessu kvöldi hafi vinnumenn átt að greiða þjónustukonum sínum (þeim sem gerðu við föt þeirra og skó) kaup þeirra fyrir árið, og hafi sú greiðsla átt að innast af hendi með einkar ástúðlegu viðmóti, einsog þetta vísukorn bendir til: Þriðjudaginn í föstuinngang það er mér í minni þá á hver að falla (hlaupa, þjóta) í fang á þjónustunni sinni. Annað nafn þessa dags, hvíti týsdagur, kemur fyrst fyrir í almanaki Jóns Sigurðssonar árið 1853, en hefur aldrei orðið almenningsmál á Íslandi. Ekkert bendir til þess, að þetta heiti eigi sér eldri sögu í íslensku, þótt Jón kunni að hafa litið svo á, að hér væri um gamalgleymt forníslenskt orð að ræða, þar sem dagurinn heitir hvidetirsdag á dönsku. Sú nafngift er talin dregin af þeim sið að “eta hvítt” á þeim degi, t.d. hveitibollur soðnar í mjólk. Í öðrum norðurlandamálum er þessi dagur einnig kenndur við feitmeti, flesk, smjör og graut, en bolluátið hefur hérlendis verið fært á mánudaginn einsog áður sagði.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Sprengidagur“, Náttúran.is: 9. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/sprengidagur/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 9. febrúar 2016